Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fjallar enn um raflost-byssuna taser á bloggi sínu í dag, og nefnir til tvo neikvæða menn, Jónas Kristjánsson og Þráin Bertelsson, sem andstæðinga þess að venjulegir lögreglumenn fái þetta þarfaþing sem drepið hefur fleiri hundruð manns - sem annars væru á lífi í dag - til þess að draga úr hættum á starfsvettvangi sínu.
“Taser” stendur fyrir: "Thomas A. Swift Electric Rifle", Thomas A. Swift er uppdiktuð unghetja úr vísindaskáldsögum um Tom Swift eftir ýmsa höfunda.
Svo að skoðun mín megi vera sem skýrust á þessu fyrirbæri þá tel ég af og frá að vopna hina venjulegu eftirlitslögreglu með þessu vopni. Ef kylfur og liðsauki duga ekki við almennt eftirlit er heimilt að vopna lögregluna með alvöruskotvopnum, svo sem Glock-skammbyssum sem eru ljómandi góð áhöld.
Ef lögreglunni verður heimilað að bæta taser í hið almenna vopnabúr sitt mun koma að því fyrr en síðar að umdeilt verður hvort notkun í einstöku tilfelli hafi verið réttlætanleg, ekki síst ef sá sem fyrir handtökunni og raflostinu verður lifir handtökuna ekki af.
Hvert nýtt vopn sem bætist í vopnabúr hinnar almennu lögreglu leiðir til þess – þótt það sé ekki sanngjarnt – að aðilar sem telja sig vera á öndverðum meiði við löggæsluna munu líka bæta við vopnabúr sín. Taser-raflostbyssur er hægt að kaupa eftirlitslaust víða um lönd, og ef lögreglan segir að þessi tæki séu hættulaus er erfitt að rökstyðja að almenningur megi ekki eiga og bera þetta meinlausa áhald sér til skemmtunar.
Varðandi alþjóðavæðingu íslenskrar glæpastarfsemi skiptir taser engu máli. Engum dettur í hug að senda lögregluna óvopnaða gegn þungvopnuðum glæpalýð. Til þess að taka á slíkum glæpaklíkum höfum við sérsveitina sem við getum kallað á vettvang og hún er sem betur fer betur útbúin en svo að hún þurfi á taser að halda til að geta sinnt skyldustörfum sínum.
Andstaða mín gegn taser byggist á að ég til heimskulegt að bæta umdeildum vopnum í vopnabúr hinnar almennu lögreglu. Taser er vopn og meinlaust vopn er rökleysa. Það er sjálfsagt að lögreglan grípi til þeirra vopna sem duga til að kveðja niður glæpastarfsemi á landinu, en aukinn vopnaburður lögreglu á Íslandi mundi eins og alls staðar annars staðar leiða til aukins vopnaburðar meðal þeirra sem telja sig eiga í útistöðum við lögregluna.
Eftir því sem ég þekki til meðal íslensku lögreglunnar hefur hún á að skipa fjölmörgum skynsömum og mannúðlegum starfskröftum. Að mínu áliti er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gróflega undirmönnuð og að hluta til skrifast það á reikning hins mislukkaða embættis Ríkislögreglustjóra sem hefur blásið út engum til gagns frekar en púkinn á fjósbitanum forðum. Hvaða öflum sá aðili þjónaði á sínum tíma kom ekki löggæslu við heldur átökum milli grundvallargildanna ills og góðs, eins og á okkar tímum.
Íslenskum löggæslumönnum sendi ég kveðju Guðs og mín og bendi á að hlutverk lögreglunnar er að draga úr ofbeldi en ekki að auka það.
16 ummæli:
Sæll Þráinn
Datt inn á orðaskipti ykkar Björn Bjarnasonar um Taser. Ég hef ekki hundsvit á hvaða tól og tæki lögregla þarf að nota til að góma glæpamenn. Held að lögreglan viti það ágætlega sjálf. Við fyrsta lestur pistils þíns fannst mér ákveðin þversögn í því, eins og Björn bendir á, að þú skulir í nýlegum pistli þínum skrifa um vaxandi glæpamennsku hér á landi en í þeim næsta ertu alveg á móti því að lögreglan fái tæki á borð við Taser til að glíma við þetta. En svo las ég pistilinn þinn aftur og var stórlega létt, því mér sýnist þú miklu frekar að lögreglan fái Glock skammbyssur til að skjóta þrjótana. Semsagt ekkert helvítis rafmagns-nudd í skúrkunum, heldur bara plaffa þá til andskotans. Þessa afstöðu byggirðu vafalítið á því að búa í miðbænum, þar sem venjulegt fólk jafnt og löggur geta átt von á að mæta útúrdópuðu og sturluðu fólki nótt sem dag. Þá er nú betra að geta brugðið brandi og fretað á pakkið að hætti Dirty Harry. Að því loknu blæs maður á reykinn úr hlaupinu og dæsir "good riddance"
Aðdáandi
PS: Þú fyrirgefur nafnleysið - að sinni
Ágæti nafnlausi aðdáandi. Já, ég er undarlegt sambland af Móður Teresu og Dirty Harry.
Hin almenna lögregla hefur ekkert að gera við að fá taser í hendur. Þetta tæki er sagt vera hættulaust en er lífshættulegt.
Engu að síður dettur mér ekki í hug að senda vopnlausa lögreglu gegn vopnuðum glæpalýð. Löggan hefur leyfi til að nota byssur í slíkum tilvikum.
Svo langar mig ekki til að lesa svona fyrirsagnir í blöðunum: "Varð bráðkvödd um leið og ég skaut hana með tasernum" "Hélt að ellilífeyrisþegi væri innbrotsþjófur" o.s.frv.
Lést nokkrum dögum eftir að hryggjarsúlan féll saman. Það hefur ekkert að gera með óstjórnandi krampann sem hún fékk þegar hún var teisuð með 50 þúsund voltum. Já, reyndar virðist hún hafa verið líkamlega í lagi áður en við stoppuðum hana. Hún bara hlýddi mér ekki og fór ekki á hnén eins og ég vildi... Nei, nei það eru engir í starfi lögreglu sem ættu að vera í annarri vinnu.
BB
Þú fyrirgefur síðbúið svar, en ég hef bara ekki þína ofurmannlegu krafta að vera kominn að lyklaborðinu upp úr kl. 6 að morgni.
Ég velti fyrir mér hvort þú ert að tala um íslenskan raunveruleika eða bandarískan raunveruleika. Ég man t.d. ekki eftir því að íslenska lögreglan hafi nokkru sinni hleypt af skoti á glæpamenn. Hins vegar gera bandarískar löggur það daglega, enda eru viðskiptavinir þeirra vopnum hlaðnir.
Mér sýnist íslenska lögreglan aðallega lenda í slagsmálum við brjálað fólk (brjálað af eiturlyfjaneyslu). Ef ég skil þig rétt, þá viltu ekki að lögreglan geti stoppað þetta fólk með Taser eða öðrum slíkum ráðum, heldur eigi þeir annaðhvort að hætta lífi og limum í slagsmálum eða taka upp Glock skammbyssuna sína og skjóta gangsterana.
Ég er bara ekki alveg að ná þessari röksemdafærslu.
Þinn vinur og aðdáandi, en ekki alveg nógu forfallinn til að láta þig sleppa við að skýra þitt mál betur.
Kæri nafnlausi vinur og aðdáandi. Lendi lögregla í aðstæðum sem hún ræður ekki við getur hún kallað út liðsauka og sérsveitina.
Taser mun engu bæta við getu lögreglunnar til að takast á við erfiða viðskiptavini - öðru en því að dauðsföllum mun fjölga - jafnvel einnig hjá lögreglunni. Hvaða fífl sem er mun ganga með taser í vasanum ef lögreglan ætlar að streitast við að halda því fram að þetta sé gersamlega hættulaust tæki.
Gott ráð til að skilja hvað ég segi er að lesa bara það sem stendur í textanum án þess að giska á að ég hafi verið að meina eitthvað meira en ekki haft rænu á að skrifa það líka, svo að bollaleggingar þínar um að löggan eigi að fara að skjóta fólk í stórum stíl með skammbyssum eru ekki á mína ábyrgð.
Þráinn góður
Hvað á maður að halda um þessi orð þín í pistli þínum:
"Ef kylfur og liðsauki duga ekki við almennt eftirlit er heimilt að vopna lögregluna með alvöruskotvopnum, svo sem Glock-skammbyssum sem eru ljómandi góð áhöld."
Ég var ekkert að giska á hugrenningar þínar, þetta stendur þarna svart á hvítu. Reyndar vissi ég ekki að lögreglan notaði kylfur við almennt eftirlit, en væntanlega átt þú við aðstæður þar sem lögreglan þarf að kljást við hættulegt fólk. Þú mælir með kylfum, líkt og notaðar voru 1949 í slagnum á Austurvelli. Ef það dugi ekki til, þá megi vopna lögregluna með Glock skammbyssum.
Finnst þér semsagt í alvörunni að lögreglan eigi bara að hafa tvo valkosti - að berjast við útúrdópað, sturlað og stórhættulegt lið (sem þú ættir manna best að þekkja eftir rannsóknir þínar á undirheimunum, sem skiluðu sér í stórgóðri bók) með höndum og kylfum. Ef það dugi ekki til, þá eigi lögreglan að segja við brjálæðingana að bíða aðeins meðan sérsveitin sé kölluð til. Síðan sest lögreglan niður með spítthausunum og fær sér kaffibolla meðan beðið er eftir Glock-væddum lögreglumönnum. Þá standa allir upp á halda áfram slagsmálunum og ef glæpamennirnir láta sér ekki segjast, þá eigi að skjóta þá eins og hunda. Að þínu áliti virðist það mun ásættanlegra en að stuða mannskapinn með rafbyssum.
Annað get ég nú ekki lesið út úr skrifum þínum.
Aðdáun mín á þér sem rithöfundi hefur samt ekkert minnkað.
(Þráinn) ,,Já, ég er undarlegt sambland af móður Teresu og Dirty Harry."
Áhugavert sameyki og hefur áreiðanlega kostað lagni og útsjónarsemi að hafa taumhald á því.
Glock skammbyssur henta þegar þarf að ,,plaffa skúrka til andskotans" og verða því sjaldan eða aldrei notaðar.
Taser byssur eru meinlausar og henta þegar lögreglunni sýnist og verða því ofnotaðar.
Það kemur ekki að sök nema þegar fólk tekur upp á því að geispa golunni í sama bili og hleyot er af.
Balzac.
Til glöggvunar þá er lögreglan alltaf með í tækjabelti sínu kylfu, sem er samanbrotin og fáir vita af. Einnig með piparúða og handjárn. Ég er sammála því að það er óþolandi að lögreglufólk slasist í vinnuni. En þetta með að Tazer sé einhver hættulaus lausn er algerlega út í hött og enginn annar en söluaðilinn heldur slíku fram.
Amnesty International er ekki að benda á hversu hættuleg vopn þetta eru af ástæðulausu.
BB
Það er greinilega mikil þrjóska og seigla í gangi hjá lögreglunni við að fá taser í dótasafnið sitt.
Með því að beita þeim rökum að öll vopn séu "betri" en byssur er hægt að ganga ansi langt í absúrdisma.
Og varðandi mars 1949 - atburð sem lögreglan ætti aldrei að minnast á - þá er ég ekki þeirrar skoðunar að það sé í lagi að vopna lögregluna (né hvítliðasveitir) með byssum til að beita gegn almenningi sem stjórnvöld hafa reitt til reiði með framferði sínu.
Taser er lífshættulegt tæki sem mun valda því að löggan hérna fari að drepa fólk. Þeim sem finnst það eftirsóknarvert vilja taser. Við hin ekki.
Lögguna vantar ad sjálfsögdu svona:
http://blog.wired.com/defense/2007/08/no-pain-ray-for.html
Miklu flottara en Taser.
Það sem er brýnt í þessu sambandi er hversu mörgu sinnum lögregla hefur brotið af sér, sbr. þvagleggsmálið fræga.
Sé það svo að slíkt gerist án þess að ábyrgðar sé krafist, þá er hætta á að þetta vopn sé notað án þess að taka tillit til aðstæðna.
Þar með er lögregla landsins kominn með enn eitt tækið í hendurnar, án þess að þurfa að taka afleiðingum gerða sinna eins og að fylgja lögum, því lögregla er ekki hafinn yfir lög.
Lokaorð frá Aðdáandanum
Þetta er að verða ágætt held ég. Minni bara á að upphaflega vildi ég fá að vita frá rithöfundinum hvort hann væri að meina að annaðhvort ætti að berja glæpamenn með kylfum eða skjóta þá með Glock skammbyssum. Ég les það út úr umræðunni að Þráni þyki það betra fyrir glæpalýðinn að vera skotinn heldur en gefið rafstuð. Röksemdin virðist vera sú að rafstuðið sé svo hættulegt!!!!
Ekki meir um það.
Ég hef taugar til lögreglumanna sem þurfa að glíma við tryllta dóphausa sem sjálfir bera þau vopn sem þeim hentar. En ekki kýs ég neinum lögreglumanni þann valkost að þurfa að skjóta fólk sem kylfan dugar ekki á.
Þráinn, þú ert helvíti glöggur þjóðfélagsrýnir og skarpur með afbrigðum. Í þessari umræðu finnst mér þú hins vegar ekki sérlega rökfastur.
En kannski ættirðu ekkert að vera að gefa lesendum þínum kost á að vera með þessi leiðindi og athugasemdir - þú gerir lítið annað á meðan en svara þessum þrjóskuhausum.
Ekki ætla ég að sverja fyrir það að ég hef samúð með áhuga lögreglumanna á að fá rafbyssur til að bregðast við fólki sem vill berja þá í klessu. Önnur tengsl hef ég ekki en þessa samúð - en er það ekki allt í lagi að vera ekki sama um líf og limi þessara lágt launuðu manna og kvenna sem gera sitt besta til að verja okkur hin fyrir föntum og fúlmennum? Og hvers vegna skyldum við ætla þeim að vilja stuða okkur með rafbyssum í tíma og ótíma? Þau virðast varla hafa ráðrúm til að halda hraðakstri í sekfjum eða stoppa þetta helvítis veggjakrot sem er að eyðileggja miðborgina.
Segi ekki meir.
Lifðu heill
þinn aðdáandi
Ágæti aðdáandi. Þú segir: "Ég les það út úr umræðunni að Þráni þyki það betra fyrir glæpalýðinn að vera skotinn heldur en gefið rafstuð. Röksemdin virðist vera sú að rafstuðið sé svo hættulegt!!!!"
Svona má maður ekki láta í rökræðu. Að vera á móti taser jafngildir ekki því að vera hlynntur skotvopnanotkun. Staðreyndir málsins eru þær að löggan hefur ekki taser og hefur heldur ekkert við hann að gera, því að taser er lífshættulegt vopn og hefur hvergi orðið til að fækka glæpum eða létta störf lögreglumanna. Það er líka staðreynd að löggan hefur aðgang að skotvopnum - eins og nauðsynlegt er ef allt um þrýtur - og enginn hefur stungið upp á að afnema þá heimild og þaðan af síður stungið upp á að fara að skjóta á vopnlausar fyllibyttur.
Þeir sem ennþá halda að TASER sé hættulaust gerðu vel að skoða þetta: http://www2.rafis.is/files/bcajheeaeh/RARIK_Afleiding_rafmagnsslysa_rafidnadarsamband.pdf
Bendi sérstaklega á glæru nr. 8. Við erum að tala um 50000 V í Tasernum ekki 3500 rúm eins og þar er. Hvað skyldu taugar og sinar hitna við slíkt? Þar er besta leiðnin fyrir rafmagn.
Kíktu á þetta myndskeyð, Þráinn: http://www.youtube.com/watch?v=s94LWNcz2zc
Já, Skorrdal, takk fyrir þetta: það er mikil niðurbæld geðvonska í gangi. Ekki held ég að taserinn létti mönnum lund.
Skrifa ummæli