Ár er nú liðið síðan Geir Haarde fór heim með sætustu stelpunni sem hann fann á stjórnarmyndunarballinu og halda þau nú upp á pappírsbrúðkaup Flokksins og Samfylkingarinnar.
Þetta er rólegt hjónaband. Bæði hjónin hafa lag á því að fara út að skemmta sér sitt í hvoru lagi.
Ingibjörg Sólrún til að finna nýjar lausnir á deilum fyrir botni Miðjarðarhafs, agítera fyrir Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóða og útskýra fyrir útlendingum þörf Íslendinga til að drepa hvali til að svala blóðþorsta sínum. Auk þess stýrir hún vinnuhópi sem á að hanna virka ímynd Íslands í augum útlendinga.
Geir hefur aðallega gert sem allra minnst, minnugur þess að sá sem ekkert gerir gerir ekkert vitlaust. Til að spara tíma til að geta einbeitt sér að því að gera sem allra minnst hefur hann þó leigt sér einkaþotur. Einnig hefur hann hitt forystumenn Evrópusambandsins einn af öðrum til að útskýra fyrir þeim augliti til auglitis að hann vilji alls ekki ræða um Evrópusambandsaðild Íslands.
Ekki hefur gefist tími til að afnema eftirlaunaósómann, en tekist hefur að finna ýmiss ljón í veginum fyrir því að það verði nokkurn tímann hægt. Af varkárni sinni telja Geir og Inga að stjórnarskráin banni þeim að taka það aftur frá fólki sem það á sínum tíma misnotaði aðstöðu sína til að stela úr ríkissjóði.
Bæði eru þau hjónin mjög trúuð og leiða fram líf sitt í þeirri björtu sannfæringu að allt muni batna einhvern tímann og það af sjálfu sér, ef Lúðvík Bergvinsson verður til friðs og Árni Mathieson stillir sig um að gera fleiri stórskandala og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann haldi sig við lundaveiðar í sumar. Gamall ættingi Geirs úr Flokknum, BÍBÍ dómsmálaráðherra hefur fengið að búa inni á ungu hjónunum í heilt ár með einkennisbúningasafn sitt og pöntunarlista yfir hergögn. Standa vonir til þess að hægt verði að koma honum í daggæslu einhvern tímann á næstunni í einhverri af þeim dagvistunarstofnunum sem utanríkisráðuneytið rekur í mörgum þjóðlöndum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli