fimmtudagur, 22. maí 2008

Varnarmálastofnun gegn raunverulegum óvinum?


Tuttugu börn misstu mæður sínar af völdum eiturlyfja á síðasta ári, samkvæmt fréttum í Fréttablaðinu sem vitna í Barnavernd Reykjavíkur.

Á síðasta ári var 228 börnum komið í fóstur, 118 í varanlegt en 110 í tímabundið fóstur. Forsjársviftingu er þó einungis beitt í algjörum neyðartilvikum.

Ég hef engar tölur séð um hversu mörg börn misstu feður sína af völdum eiturlyfja á þessum tíma. 

Ef mæður hefðu dáið frá tuttugu börnum af völdum fuglaflensu hefði þjóðfélagið án efa brugðist við af öllum kröftum og gripið til varnaraðgerða.

Varnir gegn “terrorisma” verið stórefldar á undanförnum árum þótt hryðjuverk hafi ekki verið framin á Íslandi síðan árið 1615 þegar Ari lögreglustjóri í Ögri og sérsveit hans drápu hóp af baskneskum skipbrotsmönnum á Vestfjörðum.

Sömuleiðis hefur verið sett á laggirnar Varnarmálastofnun sem kostar milljarða þótt ekki sé beinlínis líklegt að Norðmenn eða Danir reyni að leggja Ísland undir sig á nýjan leik.

Hvar eru varnirnar gegn hinum raunverulega “terror”, þeirri plágu sem drepur fleiri ungmenni og skilur eftir sig fleiri munaðarlaus börn en nokkur plága sem hefur herjað á mannkynið síðan á tímum Svartadauða? Væri ekki ráðlegra að berjast gegn raunverulegum "óvinum" en ímynduðum? 

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er fullkomlega órökstutt hjá þér, að berjast eigi við raunverulega óvini.

Því til sönnunar má benda á riddara af þeim slóðum, sem sjómennirnir voru, er Ari lét drepa.

Hann sá fyrir sér stóra óvini o gmikilfenglega, --þó svo að samtíðarmenn hans og líklega líka skjaldsveinn hans, ---sáu bara vindmyllur.

Hvar rís skáldskapur Spánverja hærra en einmitt þegar hið raunverulega og óraunverulega sameinast?

Einn uppáhalds málari minn, (listmálari, ekki húsamálari) komst lengst í sinni list, þegar raunveruleikinn og hið ímyndaða ran saman í algerlega órjúfanlegt samband, hvort heldur var, þegar tíminn varð að lekandi klukkum eða að konulíkaminn varð að dýrindis dúkum, af hverjum listamaðurinn snæddi af. Salvador vissi sem var, að það er ekki nokkur ástæða til, að heimta, að allt sé raunverulegt.


SVo var með Dúdda, í gerfi spákonunnar/ miðilsins, sem fékk vitrun um, hvernig lásinn á hjólinu var opnaður. Litur hjólsins varð aukaatriði, og lásakerfið alsumlykjandi.

Því vil ég biðja þig, að fara vrlega, þegar þú heimtar að raunverulegir óvinir verði setti á eitthvað hærra plan en hinir ímynduðu og óraunverulegu.

Hinnsvegar er ég þér afar sammála, að dóp, hvaða nafni sem það anars nefnist, er hættulegt og sumt hættulegra en annað, hvað varðar ánetjun og fíkn.

bjarni
hinn nafnlausi
Miðbæjaríhald af hinni stórfurðulegu sort, sem enn finnst við nákvæma leit

Nafnlaus sagði...

Auðvitað. Þess vegna eiga þú og allir góðir menn að styðja það að lögreglan í landinu verði efld til að herða baráttu gegn þessum vágesti.
Það mætti byrja á því með að leggja niður varnarmálastofnun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Samfylkingarinnar.

Nafnlaus sagði...

Ég verð að vera þér fullkomlega ósammála Þráinn þegar þú segir að Spánverjavígin, sem auðvitað ættu að heita Baskavígin, hafi verið hryðjuverk.

Fjöldamorð með stuðningi hins opinbera voru þau frekar, kannski þjóðernishreinsun.

En gott og vel köllum það hryðjuverk. Mikið óskaplega myndi réttlátt sverð krossfaranna í stríðinu gegn hryðjuverkum hitta þá sjálfa oft fyrir.

Varríus sagði...

Mér finnst nú hlutur Mývetninga heldur rýr í þessu hryðjuverkatali Íslendinga.

Laxárstíflusprengjan var klárlega hryðjuverk, er það ekki?

Þráinn sagði...

Fyrirgefðu Varríus, sjálfsagt má með góðum vilja flokka Laxárstíflusprengju undir hryðjuverk en ég kalla það yfirleitt skemmdarverk sem ekki veldur blóðsúthellingum og dauða.
Nafnlaus. Já, ég vil fyrir alla muni leggja niður Varnarmálastofnun Ingibjargar Sólrúnar, Samfylkingarinnar og fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins.

Nafnlaus sagði...

"Það þarf að stórefla lögregluna", er eins og sjálfvirkt "popup" í skrifum margra, sem tjá sig um afbrot og misferli. Þetta "popup" kemur áreiðanlega djúpt upp úr undirvitundinni. En undirvitund manna hefur þá náttúru að sanka saman öllu áreiti.

Þegar einhver hefur verið heilaþveginn með miklu áróðursáreiti, er undirvitundin svo yfirfyllt af því, að í tíma og ótíma kastast upp úr henni heilu runurnar af áróðursefninu.
Í spennusögunum fer slíkur heilaþvottur venjulega fram í kínverskum eða Norður-kóreskum endurhæfingarbúðum, en í raunveruleikanum fer hann fram með lestri venjulegra dagblaða.

Til að losna við áhrif og afleiðingu heilaþvotts er, að mínu áliti, eitt ráð best, það er að gera "tantriska" hugleiðslu. Hún virkar eins og sorpbrennsla, brennir upp ruslið sem safnast hefur í undirvitundina. Hugurinn getur þá aftur farið að beita örlítið skynseminni og innsæinu í bland og sér betur hvernig hægt væri að leysa ýmis vandamál. T.d. þau vandamál sem fylgja lögreglu, þegar hún reynir að fást við ranglega skilgreind afbrot, eða afbrotaforvarnir. Má þar nefna mótmæli vöruflutningabifreiðastjóra, sífelld innbrot eiturlyfjasjúklinga, ímyndaðan hraðakstur þeirra sem eru að reyna að fylgja eðlilegum umferðarhraða, mótmæli Falun Gong, mótmæli andstæðinga virkjana, andstaða Magnúsar Skarphéðinssonar gegn hvalveiðum, niðurhal tölvufíkla, o.m.fl

Til misheppnaðra og óþarfa afbrotaforvarna má nefna móðursýkingslega eftiröpun lögregluyfirvalda á amerískum andhryðjuverkaráðstöfunum.

Alsendis óþarfar athafnir lögreglunnar í ofangreindum málum kosta skattborgarana stórfé og smám saman metta samfélagið af fasisma.

Heilaþvottar-frasinn, "að auka löggæsluna", er sýndarmennskuviðbragð þeirra sem ríghalda í þá firru að samfélaginu sé stjórnað af góðri hugmyndafræði.
Markaðshyggja kaupsýslustéttarinnar er hugmyndafræði sem er gegnsýrð af efnishyggju og hefur sett í öndvegi marga lesti mannsins. Í formi áfengis- og eiturlyfja- og peningafíknar erum við að upplifa banvæn sjúkdómseinkenni þessarar deyjandi hugmyndafræði. Aukin löggæsla mun bara auka á kvalir samfélagsins og draga eitthvað á langinn svartan dauða þessarar and-húmanísku stefnu.

Kveðja,
Guttormur Sigurðsson

Þráinn sagði...

Takk fyrir þetta, Guttormur. Lögreglumál á Íslandi eru smituð af námsferðum og samskiptum við lögreglu í Bandaríkjunum. Nær hefði verið að fylgjast betur með t.d. Norðurlandaþjóðunum.
Löggæsla í Tallahassee á ekki að vera fyrirmynd löggæslu á Íslandi.

Skorrdal sagði...

Í 34 ár hefur verið reynt að berjast gegn ólöglegum vímuefnum með lögregluvaldi, en ekkert gengur. Fleiri látast, meira magn flutt inn - aldrei fleiri hafa notað ólögleg vímuefni en í dag. Samt er milljörðum á milljarða ofan hent í þetta nýja áfengisbann, þrátt fyrir að hið fyrra hafi á engan hátt gengið upp, heldur frekar skapað neðanjarðarhagkerfi, sem ekki er enn séð fyrir endan á, 80 árum eftir að áfengisbanninu hinu fyrra lauk. Síðan heldur þroskað og vitiborið fólk að þetta sé að virka!

Hinn raunverulegi "terror" er hvernig stjórnvöld, ekki bara á Íslandi, heldur út um allan heim, hafa notað þessa "ógn" til að byggja upp eftirlitskerfi með saklausum borgurum, pólitískum andstæðingum og öðrum, sem koma hvergi nærri innfluttningi, dreifingu eða sölu þessa "vágests", heldur aðeins leifa sér að gagnrýna og sýna fram á vitleysuna.

Það er margt bölið í henni Reykjavík - en hinn raunverulegi "terrorismi" er hvernig lýðræðið er misnotað af Stjórnvöldum til að ráðast gegn réttmætri gagnrýni og kúga þá sem þora að standa upp og segja hingað og ekki lengra! En slíkt sjá auðvitað ekki blindir þurralkar, sem vilja helst að allir hætti að drekka, líka þeir sem kunna með áfengi að fara. Þeir gleyma því, að þeir eru þurrir fyrir þá sjálfa, en geta aldrei þurrkað upp veröldina í kring um sig.

Nafnlaus sagði...

Ari í Ögri var að sinna skyldu sinni að vernda Ísland, þegar hann og hans herlið tóku í gegn þessa sjóræningja. Þetta var fyllilega lögleg lögregluaðgerð ekki hryðjuverk.

Annars greinilegt að þú telur morðárásirnar 1627 ekki hryðjuverk. Af hverju? Er það ekki hryðjuverk að slátra hundruðum óvopnaðra og bjargarlausra og ræna þá næst öðrum hundruðum manna sem svipað er ástatt fyrir?


Svo næ ég ekki af hverju menn skrifa ,,tero'' tvisvar sinnum með tveimur mismundandi katakana ,,fontum'' á þessari blaðsforsíðumynd. Ekki hafa tvö þjóðríki japönsku að móðurmáli?

Þráinn sagði...

Sæll Pétur G. I. Morðherferð Ara í Ögri var svona álíka skynsamleg og Ríkislögreglustjóri sendi sérsveitina til að drepa skipbrotsmenn sem komast lifandi upp í fjöruna eftir að hafa brotið skip sín hér við land.

Auðvitað var Tyrkjaránið hryðjuverk! Það var árið 1627. Síðan hafa hvað margir Íslendingar fallið fyrir hendi hryðjuverkamanna?
Og hvað margir hafa dáið af völdum eiturlyfjaneyslu. Eiturlyfjasalar eru hinir raunverulegu hryðjuverkamenn nútímans.

Skorrdal sagði...

"Og hvað margir hafa dáið af völdum eiturlyfjaneyslu. Eiturlyfjasalar eru hinir raunverulegu hryðjuverkamenn nútímans."

Fleiri deyja á ári hverju af völdum áfengis en ólöglegra vímuefna - er þá ÁTVR að stunda hryðjuverk? Fleiri deyja á ári hverju af völdum tóbaksnotkunar en ólöglegra fíkniefna - ÁTVR er greinilega sökudólgurinn. Fleiri deyja á ári hverju af völdum ofneyslu læknadóps - eru þá ekki læknarnir sem skrifa þessi lyf "hryðjuverkamenn"?

CIA stundar stófelldan kókaíninnfluttning norður til Ameríku - ég skal viðurkenna að það eru nk. hryðjuverkasamtök. Íslenska fíkniefnalögreglan, fyrir utan að brjóta öll lög í landinu við sína iðju, hefur einnig stundað fíkniefnasölu á götum borgarinnar. Ópíumframleiðsla í Afghanistan hefur þrefaldast, eftir innrás NATO inn í landið; erum við þá ekki, sem þjóð - með fífl við stjórnvölin, vissulega - að styðja við hryðjuverkastarfsemi þá sem fjármögnuð er með heróínsölu á vesturlöndum?

Ég held, kæri Þráinn, að við ættum frekar að ræða þessi mál af viti, frekar en að gjaldfella orð líkt og "hryðjuverk" og "hryðjuverkamenn" með slíkri notkun sem er hér að ofan. Það er þagað um margt, hvað varðar misnotkun lyfja - og það eru margar staðreyndir á skjön við raunveruleikann, þegar talað er um "eiturlyf", því hin raunverulegu "eiturlyf" finnur þú nær þér, út í apóteki, frekar en hjá þeim er þú kallar "hryðjuferkamenn nútímans".