laugardagur, 24. maí 2008

Verið óhrædd


Verið óhrædd þrátt fyrir alla ógnina sem sögð er stafa af útlendingum sem dvelja hér á landi.


5 ára gömul sonardóttir mín eyðir 7 til 8 tímum í fjölmenningarlegu samfélagi 5 daga í viku. Hún er nemandi í leikskólanum Njálsborg.

Kennarar hennar eru af 5 mismunandi þjóðernum og nemendurnir eru af 21 þjóðerni.

Skólastarfið gengur einstaklega vel fyrir sig. Kennararnir eru góðir og þolinmóðir við börnin, og börnin mæta glöð og full tilhlökkunar á hverjum degi.

Þegar sonardóttir mín lýkur námi sínu á Njálsborg og heldur á vit næsta verkefnis sem veröldin ætlar henni mun hún ekki vera hrædd við útlendinga. Reynsla hennar af þeim er í stuttu máli sú að þeir séu alveg eins og Íslendingar sem eru stundum geðvondir á morgnana og vilja ekki borða grautinn sinn, en það kemur sjaldan fyrir.

Ef enginn stríðir neinum þá eru dagarnir skemmtilegir á Njálsborg, enda eru allir sem þar starfa og læra ósköp venjulegir Reykvíkingar á því herrans árið 2008.

P.S. Blóðið í öllum er rautt og við þurfum öll plástur þegar við meiðum okkur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er ég viss um að afastelpan þín á eftir að plumma sig vel í lífinu. Leikskólinn hennar er dæmi um umhverfi sem temur krökkum umburðarlyndi, víðsýni og kærleik.

Skemmtileg saga sem við hin gætum lært heilmikið af.