föstudagur, 30. maí 2008

HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA

Jæja, þá er Alþingi búið að sameina alla íslensku þjóðina í HOLLVINAFÉLAG EINKABANKANNA með því að samþykkja að kaupa 500 milljarða líftryggingu handa þeim sem viðskiptavinirnir borga.

Ég er nú ekki tiltakanlega félagslyndur maður og finnst orðið nóg um, því að fyrir var ég í HOLLVINAFÉLAGI BÆNDA, HOLLVINAFÉLAGI ÚTGERÐARMANNA og HOLLVINAFÉLAGI ALDRAÐRA RÁÐHERRA OG ALÞINGISMANNA.
Einhvern veginn hafði ég ímyndað mér að félagshyggja gæti verið öðruvísi.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

50 þingmenn samþykkja málið samhljóða. Gæti verið að þú sért á villigötum?

Það er dálítið fyndið að lesa skrif margra þessa daganna. Ruglið er svo yfirgengilegt og menn skrifa og blogga um hluti sem þeir sannast sagt hafa ekki grænan grun um hvað snýst.

Þetta lán snýst um hagsmuni íslensks samfélags en ekki bankana. Til þess að halda þessari viðamiklu starfsemi hér á landi þá verður að búa til umhverfi fyrir hana.

Það er eins og menn skilji ekki að þetta snýst um atvinnu fyrir nokkur þúsund manns sem eru með mikla menntun og á háum launum. Ef það er markmiðið að fækka atvinnutækifærum fyrir menntafólk hér á landi þá endilega skulum við bara loka í lás neita bönkunum um fyrirgreiðslu sem er sambærileg við það sem erlendir bankar njóta í sínum heimalöndum. Menn verða þá að vera tilbúnir að taka samdrættinum sem því fylgir. Sem væri atvinnuleysi í bankageiranum, lögfræðistéttinni, endurskoðendastéttinni, almennir viðskiptafræðingar missa vinnuna, verkfræðingar, markaðsfræðingar, samdráttur á fjölmiðlamarkaði, samdráttur í veitingageiranum, og fleira og fleira. Bara það að bankarnir séu að skera niður kostnað er að valda heilmiklum sársauka t.d. í tölvugeiranum hér á landi.

Það tæki 10-20 ár að vinna upp það tap sem af þessu hlytist.
Þeir sem átta sig á heildarmyndinni (sem betur virðist Alþingi gera það) skilja það að hagurinn að því að viðhalda þessari starfsemi hér á landi er margfaldur miðað við kostnaðinn af þessu láni. Það verður nefninlega ekki bæði sleppt og haldið í þessu máli frekar en svo mörgum öðrum.

Þannig að ef að yfirlýst stefna Þráins er að minnka stórlega atvinnuframboð hér á landi fyrir hámenntað fólk þá haltu þessu bulli áfram en það er eins gott að þú skiljir afleiðingarnar.

IG

Þráinn sagði...

Það er mikið loft í þér, IG, þótt sjálfstraustið nægi samt ekki til að koma fram undir nafni.
Sá misskilningur að fjármálafyrirtæki séu undirstaða velsældar á Íslandi byggist á því að þegar bankarnir voru einkavæddir fóru hinir nýju peningafurstar og stóðu á beit í ódýru lánsfé erlendis - og héldu að sumarið væri endalaust og haginn ókeypis.
Nú er búið að reka úr haganum og meira að segja farið að rukka inn fyrir beitina. Þá á þjóðin að borga kostnaðinn. Gróðinn var hins vegar fyrir fáa.
BA-ðróf í viðskiptafræði er sennilega það sem þú átt við þegar þú talar um hámenntað fólk. Sem betur fer getur hámenntað fólk fundið sér og skapað sér önnur störf en að vinna í illa reknum einkabönkum.
Ef þú hefur áhuga á að ræða þetta frekar og helst illyrðalaust er þér velkomið að skrifa meira - en þá undir nafni. Og mundu að Björnstjerne Björnsson sagði: "Lítillæti hæfir ungum mönnum best."

Nafnlaus sagði...

Þessi hagur hefur nú farið framhjá mér og mörgum á mínu reki.

Við erum hinnsvegar á því, að það sé hagfellt, að svoleiðis kerfi, sem bankar og sjóðir í raun eru, séu þannig reknir, að ekki þurfi til að koma meðgjöf, ábyrgðir, lántaka svo þeir geti fengið lán hjá Seðló, því þeir séu búnir að sólunda orðspori Íslands og lánstraust sem við þó höfðum rokið út í gjörningaveður ofurlauna.

Verðugur er verkmaður launa sinna EN ef greiða ætti stjórnendum téðra banka að virði, væru launin verulega lægri en hjá skúringakonunum, sem eru komnar með rúsínuputta af tuskukreisteríi.

Hagfellt er, að reka fyrirtæki, sem skapa en eyða ekki tiltrú á getu lítillar þjóðar tila að standa keik og góð fyrir sinn hatt.

Annars var dagurinn hj´amér þannig, að ég þurfti að standa yfir moldum duglegs ungs manns, sem allt lék í höndunum á í framleiðslu og sköun smíðisgripa af járni, tré og ýmsu öðru.

Krabbinn lagði hann ungann.

Því verður stutt í mér, þegar einhverjir spekingar mæra undirmálsstjórnendur og lántöku sem börn þessa öðlings, þurfa að greiða fyrir síðar.

Herrann fyrirgefur svona en ég þarf í það minnsta nokkurn tíma til að melta svona hervirki,--áður en grunnur næst fyrir fyrirgefningu.

Þakka síðuhaldara fyrir rýmið sem ég tók hér ófrjálsri hendi..með heilagri tölu frelsisins

Kveðjur í vinsemd og virðingu

Nafnlausi Bjarni
Mi'bæjaríhald m.m.

Nafnlaus sagði...

Það er dálítið gaman að þessu - uppáhalds rök fjárglæframanna og
stuðningsmanna þeirra eru alltaf "þið skiljið þetta ekki"! Það má sjá þetta í hverju bloggi á fætur öðru.

Ég held að við séum öll búin að skilja það, að ástæðan fyrir því að við erum að fara að taka mjög dýrt lán núna, er að bönkunum voru engar skorður settar og gjaldeyrisforðinn var ekki látinn fylgja umsvifunum. Þetta er megin ástæðan fyrir vantraustinu og nú þarf að bjarga málunum með buxurnar á hælunum.

Hitt er svo annað mál að íslenskir bankamenn töldu sig hafa fundið upp
hjólið, og eins og oft gerist í fjármálaheiminum töldu þeir sig öðrum snjallari og undir það tók þjóðin heils hugar, við skulum ekki gleyma því.

Nafnlaus sagði...

Guð er góður og Jesús betri:

ég er allaf sammála síðasta ræðumanni, og það er La,la,,la,lalalal,alalalalalalalala

Nafnlaus sagði...

Jesús var aldrei til, Mohammed ekki heldur, hvað þá Jóhannes eða María May. Allt bull og vitleysa.

Nafnlaus sagði...

Við lifum á valdatíma kaupsýslustéttarinnar. Hennar valdagrunnur er hugmyndafræði markaðshyggjunnar. Á þeim viðsjála grunni hefur hún byggt upp flókið efnahagskerfi. Í byrjun valdatíma hennar jukust framfarir á efnahagslegu sviði. En vegna þess að markaðshyggjan er fyrst og fremst sniðin til að þjóna einni stétt, hefur efnahagslegur ójöfnuður vaxið óhuggulega hin síðari ár.
Það er ekki, eins og flestir halda, aðeins einn eða tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem starfa á grundvelli markaðshyggjunnar, heldur allir. Enginn hefur í raun tekið sér hugmyndafræðilega stöðu utan við "peripheríu" markaðshyggjunnar. Þeir einfaldlega geta það ekki sökum vanþekkingar og vanabundinnar hugsunar. Þessvegna veita forystumenn þeirra allra, þeirri ráðstöfun stuðning, að þjóðin komi nú til hjálpar bönkunum með 500 milljarða láni ríkisstjórnarinnar.
Á sama tíma eru bankarnir að reyna að alþjóðavæðast með því að bjóða erlendum fjármálastofnunum hlutdeild í sér. Svo gæti því farið að skyndilega væru þessir íslensku bankar aðeins hlutar af miklu öflugri erlendum fjármálastofnunum.

Ég hef rökstuddan grun um að farið sé að hrikta verulega í fúnum stoðum markaðshyggjunnar, en kaupsýslustéttinn og allir sem hún hefur flækt í hagfræðilegar trúarkreddur sínar, munu, fram í rauðan dauðan, reyna að koma í veg fyrir hrun þessarar efnishyggjulegu og ómannúðlegu hugmyndafræði. Slíkt mun hinsvegar verða almenningi dýrkeypt og skapa miklar þjáningar og þrengingar. Til að koma í veg fyrir slíkt og að óumflýjanlegu dauðastríði þessarar forneskjulegu græðgishugmyndafræði, sé dregið á langinn, er mikilvægast að þróa nýja og betri hugmyndafræði sem tekur til greina þarfir manna á efnislegu, huglegu og andlegu sviði setur eignasöfnun þak og hefur til vegs og virðingar göfugri gildi, heldur en þau sem liggja að baki þeirri hugsun að allt sé falt.

Kveðja,
Guttormur Sigurðsson

Þráinn sagði...

Blessaður Guttormur. Vona að þú reynist sannspár.