miðvikudagur, 21. maí 2008

Furðulegt sakamál


 “Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Jónas Gunnarsson í fimm mánaða fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot. Annars vegar gerðist hann sekur um að hafa stolið súpu að verðmælti 250 krónur í verslun 10-11 í Austurstræti 22. febrúar síðastliðinn, en hann neytti hennar inni í versluninni án þess að borga fyrir hana. Tveimur dögum síðar var hann aftur á ferð í verslun Hagkaupa í Kringlunni þar sem hann stal Chef Marina Conac að veðmæti 769 krónur. Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsið árið 2005 og með brotum sínum rauf hann skilorð þess dóms.

            Þessa frétt las ég á dv.is.

            Ég þekki ekki téðan Jónas Gunnarsson en ég er reiðubúinn að veðja að þessi vesalings maður er sjúklingur fremur en glæpamaður. Fyrir sosum tvöhundruð árum hefði hann örugglega verið dæmdur til að hýðast 3x27 vandarhöggum – en 27 vandarhögg voru einhver magísk tala sem dómsmálayfirvöld til forna höfðu mikla trú á.

            Að dómstólar okkar árið 2008 skuli sóa tíma sínum í að dæma sjúklinga til fangelsisvistar er ofvaxið mínum skilningi. Ég hélt að það heyrði undir heilbrigðisráðuneytið að sjá sjúklingum fyrir aðhlynningu annars staðar en í fangelsum landsins.

            1.

            Ef ég hef á röngu að standa og Jónas Gunnarsson er forhertur glæpamaður og heill heilsu til líkama og sálar þá er hann örugglega lélegasti glæpamaður veraldar – að lenda í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela súpu og súkkulaði að verðmæti 1019 krónur. Og þá væri þjóðþrifaverk að gera gamansama kvikmynd um svo fákænan glæpamann.

            2.

            Ef hann er hins vegar sjúklingur en ekki glæpamaður væri þjóðþrifaverk að gera alþjóðlega kvikmynd um land sem býr við dómskerfi sem fangelsar sjúklinga í stað þess að beina þeim þangað sem reynt er að líkna þeim.

            3.

            Ef vandamálið er fátækt en hvorki sjúkdómur né glæpahneigð hvar erum við þá á vegi stödd?

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég tel mig vita hver maðurinn er og svo sannarlega er hann sjúklingur.
Hafi Héraðsdómur skömm! Þeim ganga ekki svona greiðlega dómarstörfin þegar fjallað er um mál sem einhverju skipta. En að dæma fjársjúkan mann til refsivistar - ja, maður les um svona nokkuð í annálum. En hafði trú á eitthvað hefði breyst. Mikið voðalega getur maður verið vitlaus.

Nafnlaus sagði...

Kerfið okkar virðist ekkert geta gert fyrir þennan mann. Það skortir líka allan vilja ráðafólks til þess. Við megum skammast okkar sem vel sett þjóð þegar eina lausnin er fangelsi fyrir veikt fólk! Takk fyrir frábæran pistil.

Skorrdal sagði...

Ef vandamálið er fátækt, ofan á sjúkdómsvandann, er (eða amk. var) eitthvað til sem hét/heitir "neyðarréttur". En, vegna þess að þessi einstaklingur stal hundraðköllum, ekki milljónum eða milljörðum, þá finnst Kerfinu réttast að refsa honum.

Í dag er fólki refsað fyrir sjúkdóma; allt að 80% þeirra sem sitja í fangelsum landsins eiga við fíkniefnavanda að stríða - 60% þeirra sitja inni beint vegna síns fíkniefnavanda. Einusinni henti þetta samfélag geðsjúkum í fangelsi - hvenær ætli það flytji fíkniefnamálin af hendi lögreglu og til hjúkrunarfólks?

Nafnlaus sagði...

Sjúkdómsvæðing anyone?

-Helgi

Skorrdal sagði...

Helgi:

Með fullri virðingu, þá er fíkn skilgreind sem sjúkdómur - og þá væntanlega það sem henni tengist, afleiðingar - ekki orsök. Svo í raun er ekki verið að biðja um að sjúkdómsvæða neitt, heldur, eins og ég skil þann málfluttning sem Þráinn er hér með, að flytja meðhöndlun sjúklinga frá lögreglu og dómsvaldi, til þeirra aðila sem hvað best meðhöndla slíka sjúkdóma; lækna og hjúkrunarfólks.

Vissulega hefur ýmislegt verið sjúkdómsvætt gegnum árin, en fíkn (eins og skilgreining á Íslandi og fleiri löndum er) er sjúkdómur, mest meðhöndlaður af lögreglu í dag, sem hefur ekki alveg þá réttu þekkingu til að bera, að taka á þeim málum.

Nafnlaus sagði...

MAurar skilja ekki hvað fótur er, þeir sjá bara eitthvað svaka stórt.

EIns er með dómskerfið okkar, það skilur ekki það sem er stórt og mikið, nær ekki utanum svindl upp á milljarða, sálarmorð og svoleiðis.

Þeir skilja aftur það smáa og líkt og þeir sem búa í sverðinum. finna þeir það sem þar er og skilja það.

Dómskerfið okkar nær ekki utanum eitt né neitt sem er stórt og kmikið, heldur bara snærisþjófnaði ofan af Skaga, og súpuþjófa úr 101 Rvík.

mér er misboðið, dómararnir úrskurða sjálfa sig með svoddan framferði,--180 þúsund í sekt!!!! maður sem þarf að nappa se´r súpu í galtóman maga sinn!!!!

Hvar eru aristokratar Íslands?

Ekki eru þeir lengur í stjórnunarstöðum eða hvað?

Oliver Tvist bað um meiri Súpu og gerði alla snaróða af bræði.

Hvað er þetta annars með snæri og súpur?

Hví espa þessi ítem upp refsigleði manna?

Næst ættu menn að stela Graut.

bjarni hinn nafnlausi
Íhald með meiru

Nafnlaus sagði...

Þjófnaðurinn í hagkaup er reyndar hálfs lítra brúsi af 40% koníaki.

Jú, áfengi er selt í Hagkaup, en það er saltað og óhæft til neyslu. Braa hægt að nota í súpur eða sósur ( muna að draga úr saltnotkun til samræmis ).

Súpan var honum væntanlega til meira gagns.

Þetta og hörmulegar fréttir af láti foreldra ungra barna sýnir svo ekki verður um villst að neysla hugbreytandi efna er félagslegt og heilsufarslegt vandamál og verður að takast á við sem slíkt, ekki sakamál.

Nafnlaus sagði...

Held við ættum að láta Efnahagsbrotadeildinni eftir smærri þjófnaði í þessu landi og hina almennu lögreglu um rannsókn stærri efnahagsbrota.

Þá myndi kannski einhver þeirra fjölmörgu hvítflibba sem sloppið hafa við refsingar fá dóma í samræmi við brot sín sem annars hefðu ekki verið, ýmist vegna tafa á rannsókn mála þeirra eða þess að mál þeirra þóttu of flókin og var þannig stungið ofan í skúffu merkta "til fyrningar".

Efnahagsbrotadeildin hefur á undanförnum árum verið svo upptekinn af því að átta sig á muninum á debet og kredit í reikningum Baugs að fjöldi mála annarra hefur endað í skúffum með þeim afleiðingum að þau hafa fyrnst. Ef þau hafa ekki fyrnst hafa dómstólar neyðst til að benda saksóknurum efnahagsbrota á að það stangist á við grundvallarmannréttindi að draga rannsóknir í mörg ár og því hafa sakborningar í málunum, sem sannarlega hafa brotið af sér, sloppið við að verma harðan bekk á Hrauninu.

Látum hinn samviskusama löggumann sem rannsakaði matreiðslukoníaks- og súpustuldinn í hvítflibbamálin, hann virðist í það minnsta þekkja mun á debet og kredit, og er með upphæðir á hreinu.

Haraldur, Helgi Magnús og Jón HB geta svo sökkt sér í að saksóknartilraunir á súpu og brauðþjófum.

Nafnlaus sagði...

Hvernig er það, er þá bara ekki löngu kominn tími á að Þráinn Bertelsson
geri nýja kvikmynd?

Kv.
Hafliði

Þráinn sagði...

Sæll, Hafliði. Jú það væri gaman að gera mynd og ekkert því til fyrirstöðu nema hvað ég hef lofað sjálfum og fjölskyldu minni að framleiða ekki fleiri kvikmyndir. En ef einhver góður framleiðandi vill fá mig til að skrifa handrit og leikstýra þá er ég tilbúinn.