fimmtudagur, 1. maí 2008

Rafbyssur sem kennslutæki


Vegna umræðna um þá frómu ósk lögreglunnar allar löggur fái rafmagnsbyssur til að beita í þágu valdstjórnarinnar og vegna umræðna um agavandamál í skólum vil ég að eftirfarandi komi fram:


Mér sýnist lögreglan hafa nægjanlegan aðgang að ofbeldistækjum sem beitt er af takmarkaðri skynsemi, samanber nýafstaðnar lögregluaðgerðir við Rauðavatn. 

Þar sem löggur hafa gjallarhorn, eiturgas, piparúða og kylfur til að halda uppi röð og reglu (og aðgang að skotvopnum) hafa kennarar aðeins kennaraprik eða leisibendil til að fanga athygli nemenda og mega hvorki berja þá með prikinu né lýsa í augun á þeim með leisibendlinum.

Ég held að agavandamál í skólum séu mun alvarlegra þjóðfélagsvandamál en borgaraleg óhlýðni og mótmælaaðgerðir og mundi fyrr styðja að kennarar gætu haft not fyrir rafbyssur en löggurnar.

Þótt ekki liggi fyrir ítarlegar rannsóknir um hver áhrif rafbyssulost hafa á börn og unglinga má ætla að stálpaðir krakkar þoli rafbyssuskotin ekki verr en fólk sem er komið með kosningarétt en samkvæmt upplýsingum frá löggunni eru raflost frekar hressandi en banvæn. 

Ég álít að rafbyssur séu óþarfar á lægstu skólastigum eins og í leikskólum en hugsanlega mættu leikskólakennarar beita vatnsbyssum á nemendur sína við sérstakar aðstæður.

Engin ummæli: