mánudagur, 5. maí 2008

Dýrt spaug hjá Flokknum og Samfylkingunni


Bandaríkjamenn sem eru mestu hernaðarspekúlantar á jörðinni sáu um varnir Íslands í marga áratugi. Þeir höfðu flugvélar og herlið í nágrenni við bæ sem þá hét Keflavík. Fyrir langalöngu síðan byrjuðu Bandaríkjamenn að reyna að útskýra fyrir íslenskum stjórnmálamönnum í Flokknum að Ísland ætti enga óvini og það væri bara sóun á peningum og drápskunnáttu að vera með varnarlið hérna.


Fyrir þrábeiðni og skírskotanir til ímyndaðra persónulegra vináttutengsla húkti bandaríska varnarliðið hérna mun lengur en nokkur glóra var í frá herfræðilegu sjónarmiði.

Loks kom þó þar að Bandaríkjamenn nenntu ekki lengur að taka þátt í ofsóknaræði og sjálfsblekkingu Íslendinga og höfðu sig á braut og enginn missti svefn yfir því nema þeir Flokksforingjar sem óttast alla útlendinga aðra en Bandaríkjamenn.

Natóherinn fór og næsta sjálfsagða skref fyrir Íslendinga hefði verið að segja sig úr Nató og ganga í Evrópusambandið.

Þess í stað var sett upp Varnarmálastofnun sem á að kosta milljarða. Flugsveitir frá nokkrum þjóðum eiga að sveima yfir Ísland nokkrum sinnum á ári til að stugga við óvinum okkar. Í dag kom frönsk flugsveit sem ábyggilega kann vel til verka, en meira vit hefði verið í að bjóða hingað herskara af frönskum matgerðarmönnum til að hressa upp á íslenska matgerðarlist.

Eini gallinn á þessu hernaðarfyrirkomulagi fyrir utan hvað það kostar mikla peninga er að íslenska þjóðin telur sig ekki eiga neina óvini - nema þá að íslenskir stjórnmálamenn hafi komið sér upp voldugum óvinum á tilgangslausu mikilmennskuflakki sínu um plánetuna.

Alla vega langar mig að vita hvaða óvinir það eru sem við eigum að borga flugsveitunum milljarða fyrir að halda utan lofthelgi landsins? Írakar eru eina þjóðin sem við höfum tekið þátt í að ráðast á? Eru það Írakar sem menn óttast? Eða Rússinn sem Mogginn hefur haldið fram áratugum saman að sé á leiðinni hingað til að klekkja á íslenska auðvaldinu? 

Eða er þetta bara sýndarmennska eða ofsóknarbrjálæði?

Og hvort þá heldur? 

Og er ekki bara hægt að borga grínið úr flokkssjóðum Flokksins og Samfylkingarinnar í stað þess að bæta þessu ofan á aðra skatta?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Væri ekki ráð að festa þessa íslensku stjórnmálamenn sem fengu þessa hugmynd við eldflaugarnar á þotunum og skjóta þeim útá hafshauga?

Nafnlaus sagði...

Þetta er bruðl. Hernaðarbrölt. Sýndarmennska. Karlmennskuímyndarrembingur. Hér eru friðartímar og engir óvinir.

Nafnlaus sagði...

Við réðumst líka á Serba og Svartfellinga fyrir stuttu.