fimmtudagur, 8. maí 2008

Geðvondur utanríkisráðherra


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra segir engu líkara en fréttastofa Stöðvar tvö sé í stjórnmálastarfsemi en ekki í rekstri fréttastofu.

Ástæðan fyrir þessum ummælum er sú að fréttastofa Stöðvar tvö hefur ítrekað spurt um efndir þess kosningaloforðs Samfylkingarinnar sem þjóðin hefur hvað mestan áhuga á að staðið sé við – strax. Sem sé: Afnám eftirlaunaósómans.

Af einhverjum ástæðum þykja utanríkisráðherranum þessar spurningar pirrandi og reynir að koma sér undan með þeim útúrsnúningi að eðlilegt eftirlit með siðferði eða siðferðisbresti stjórnmálamanni heyri ekki undir fréttaöflun heldur stjórnmálastarfsemi.

Ef kosningaloforð eru fréttnæm, af hverju flokkast það þá undir stjórnmálastarfsemi að spyrja um efndir þeirra?

Með ennþá betri rökum má halda því fram að störf formanns Samfylkingarinnar flokkist ekki undir pólitík heldur sýndarmennsku, sbr. atkvæðasnap vegna hins vonlausa og kostnaðarsama framboðs í Öryggisráðið og sleitulaust starf við að handsmíða nýja ímynd fyrir íslensku þjóðina. Er ímyndarvinna pólitík? 

Er ekki allt í lagi með utanríkisráðherrann?

 

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú ber me´r enn að þakka orðsmíð, þína eða einhvers annars dverghags oðrsmiðs. Orðið ,,Sproksetja" er dægilegt mjög.

Minnir á suma athafnasama menn í SA Evrópu, sem brúkuðu staura til að staursetja menn, sem voru með kjaft eða til annarskonar vandræða.

Minnir á vin okkar Matta Bjarna,- hann Sjáseskú, sá kumpánlegi byggingafrömuður, sagði einhverntíman að í sínu landi væru engin vandræði, --þeim væri samstundis eytt.

Ingibjörg er bara pirruð og lítu ekki á svoddan vísi af stjórnmálaflokki, neinum Sjáseskú augum.

Hún bara hvessir á fréttamenn augunum, svo mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Augnsvipurinn á henni er stundum svoleiðis, að ég vorkenni þeim Flokksmönnum mínum, sem verða fyrir þvi tindri.

Ég sakna hans Einars Odds, mjög mikið. Átti því láni að fagna, að við vorum góðir vinir og með okkur bræðralag.

Hann fór ekkert í felur með sína skoðun á Öryggisráðssætakaupum og annarskonar eyðslusemi fávísra snobbara ALLRA flokka.

Hans rödd er því miður hljóð í Mannheimum en minningin er jafn ljúf og snemmsumarsangan í áningarstað á grónum lækjarbakka í fallegum lundi.

Hann var eitthvað svo íslendkur og sannur.

Bjarni Kjartansson
Miðbæjar, þú veist

Nafnlaus sagði...

Nýlega sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætla að ganga lengra en útpælt frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur og félaga gerir ráð fyrir, en í greinargerð þess segir:

"Áhöld hafa verið um hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verndi þau réttindi sem fólk hefur áunnið sér eða fengið samkvæmt hinum umdeildu lögum. Til að forðast að málið lendi í sjálfheldu málalenginga á grundvelli formsatriða, svo sem tengsla eignarréttarákvæða við löggjöfina frá 2003, er gert ráð fyrir að áunnin réttindi samkvæmt hinum umdeildu lögum skuli í engu skert."

Með útspili sínu gæti Ingibjörg eyðilagt málið, einmitt með því að ganga gegn þessari leikaðferð Valgerðar Bjarnadóttur og félaga. Samt þannig að hún sýndist gera meiri kröfur – og hindraði um leið að málið kæmist gegnum þingið.

http://www.visir.is/article/20080330/FRETTIR01/80330046&sp=1

Nú vill Ingibjörg hins vegar engu svara um það hvort málið verði klárað fyrir þinglok. Sjá:

http://visir.is/article/20080507/FRETTIR01/283217758

Þessi framkoma minnir í senn á ónefndan mann og annan í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Rómverji

Þráinn sagði...

Íhald og Rómverji; fyrir löngu var sagt að Sólrún minnti á Svarta-Loft í einu og öllu, nema hvað hún væri húmorslaus.