fimmtudagur, 8. maí 2008

Velkominn Jakob!

Hafi ég ekki misskilið málið þeim mun meir hefur Jakob Magnússon verið ráðinn tímabundinn til að sinna ákaflega brýnu verkefni hjá Reykjavíkurborg.


Í stað þess að reyna að gera þessa ráðningu tortryggilega með því að bera saman launakjör "freelance" aðila og fastráðinna starfsmanna sem hægt er að toga og teygja og túlka á þúsund vegu ættu borgarfulltrúar að sjá sóma sinn í að leggja sig alla fram við að hífa Miðborg Reykjavíkur upp úr langvarandi sóðaskap, skipulagsrugli og niðurlægingu.

Sem íbúi í Miðborginni býð ég Jakob velkominn til starfa og vona að hann fái starfsfrið og umboð til þeirra góðu verka sem löngu er tímabært að vinna.

P.S. Og mér er nákvæmlega sama um hvaða stjórnmálaflokki Jakob tilheyrir og hvort sá flokkur tilheyrir svokölluðum meiri- eða minnihluta. Aðalmálið er að hann komi sér að verki sem fyrst við að vinna á þágu íbúa borgarinnar. Sem er nokkuð sem stjórnmálaþráttararnir í borgarstjórn mættu hafa í huga.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki í lagi?
Af hverju þarf alltaf að ráða þá í opinber störf sem minnsta hæfileika hafa til að bera? Fjöldinn allur af fólki sem hefur menntun og hæfileika til starfsins fékk ekki einu sinni að sækja um!!!
Skamm...

Þráinn sagði...

Ágæti nafnlaus. Hér er ekki um framtíðarstarf að ræða heldur skammtímaverkefni. Maður hringir á leigubíl en auglýsir eftir einkabílstjóra.

Nafnlaus sagði...

Alveg hjartanlega er ég sammála þér núna Þráinn. (Það gerist reyndar ekki oft)
Verkefni í miðborginni eru brýn og allt búið að vera í rugli um langan tíma. Ég hef nú ekki verið sérstakur stuðningsmaður þeirra Magnússona sem leika aðalhlutverkið í þessu drama.
Ég hef hins vegar trú að því að Jakob Frímann sé frábær í jobbið. Þetta er svoleiðis jobb. Borgarstjórinn fær plús fyrir hugrekki að taka af skarið með þetta. Það hefði enginn sagt neitt ef ráðinn hefði verið einhver sprenglærðu skipulagsfræðingur. Miðborginni er að blæða út og þá þarf töffara til að ganga í málið en ekki fleiri nefndir takk.

Þráinn sagði...

Takk fyrir þetta Ragnar R. Við höfum öll einstöku sinnum á réttu að standa.

Nafnlaus sagði...

Því miður ertu ekki einn um þá skoðun að lýðræðisleg, sanngjörn og heiðarleg stjórnsýsla - siðað samfélag - megi sigla sinn sjó þegar svo ber undir.

Ertu þá ekki líka á því að Þorsteinn Davíðsson sé prýðilegur maður og muni þess vegna áreiðanlega standa sig ágætlega sem héraðsdómari? Er það ef til vill kjarni málsins?

Hugsaðu málið upp á nýtt, Þráinn.

Rómverji

Þráinn sagði...

Kæri Rómverji. Nei, ég hef nú alltaf verið svona heldur á því að okkur beri að reyna að koma hér á siðuðu samfélagi.
Ég er á því að Þorsteinn Davíðsson sé án efa prýðilegur maður en að hann hafi fengið veitta mikilvæga stöðu í dómskerfinu vegna frændsemi og stjórnmálatengsla. Jakob er ráðinn í átaksverkefni sem á að standa í 11 mánuði og á að starfa náið með borgarstjóranum (sem virðist vera óttalegur einstæðingur). Tímabundin, pólitísk ráðning á aðstoðarmanni.
Þorsteini var veitt framtíðarstaða í dómskerfinu sem á að vera frjálst undan afskiptum framkvæmdavaldsins.
Ef borgarstjórinn í Reykjavík þyrfti að láta vinna skýrslu um eitthvert málefni væri sem betur fer óþarfi að auglýsa það verkefni, skipa nefnd til að fara yfir umsóknir o.s.frv.
Fattaru?

Nafnlaus sagði...

Gallinn við þessa röksemdafærslu er að allir eiga sín brýnu verkefni. Öllum finnst eitthvað svo brýnt að nú verði bara að ráða einhvern í málið - hringja á taxa, ekki auglýsa eftir einkabílstjóra eins og þú segir.

Íbúa í Grafarvogi getur fundist það vera eitthvað í hans hverfi, Hlíðarbúa eitthvað hjá sér og svo framvegis.

Svo þarf það ekkert að fara eftir búsetu - jú vissulega er miðborgin okkar allra.

En þá getur öðrum þótt eitthvað annað algjört forgansverkefni. Við verðum að ráða einhvern til að efla almenningssamgöngur núna strax! Einhvern til að taka á leikskólamálunum núna! Einhvern til að græja mislæg gatnamót í borginni pronto!

Mér segir nefnilega svo hugur um að þú værir á öðru máli um þetta ef þetta snéri ekki að miðborginni sem þú hefur lengi kvartað yfir. Það getur vissulega verið rangt hjá mér.

Og svo er þeirri spurningu ósvarað hvað JFM á að gera á einu ári til að breyta ástandinu þar?

Nafnlaus sagði...

Kæri Ég. Ekki bara einhvern, heldur pólitískan jábróður, ættingja, eða bara einhvern sem hefur nýtt sér einstæðingsskapinn og kjaftað sig inn. Eitthvert rembimennið, til dæmis.

Mér finnst eins og ég hafi fattaða.

Rómverji

Þráinn sagði...

Kæri Rómverji. Þetta er pólitískt aðstoðarmanns starf! Og ekkert verið að pukrast með það. Rétt eins og þingmenn mega ráða sér aðstoðarmenn að eigin geðþótta. Það væri undarleg ráðstöfun ef þeir þyrftu að auglýsa eftir aðstoðarmönnum og ráða pólitíska andstæðinga sína ef þeir væru með góðar gráður!
Jakob er ráðinn í tímabundið verkefni á vegum pólitísks borgarstjóra. Ég kaus ekki þennan borgarstjóra en í þessu tilviki hefur hann rétt til að gera það sem hann er að gera.
Bestu kveðjur,

Þráinn sagði...

Ágæti Ég. Afsakaðu að ég skildi svara Rómverjanum fyrst. Jú, ég væri nákvæmlega sömu skoðunar þótt borgarstjórinn hefði ráðið Jakob til að taka til hendinni í Hlíðunum eða Árbæjarhverfinu. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég veit ekki hvað pólitískt umburðarlyndi mitt mundi duga í marga aðstoðarmenn handa borgarstjóranum. Einn til átta, kannski.

Nafnlaus sagði...

Heldur er erfitt að fylgjast með þér verja þetta ÞB. Gerir annan málflutning þinn svolítið skrítinn. Allt í einu í lagi að ráða vin sinn upp á 900.000 af því þú vilt átak í miðborginni. Sorrí, veldu þér betri málstað.

Nafnlaus sagði...

Spurningin er hins vegar hvort Jakob fái starfsfrið þar sem borgarfulltrúarnir fjórtán (aðrir en Ólafur) hafa lítinn áhuga á því að Ólafur verði sér úti um success story í miðbænum.

Öll borgarstjórn er ennþá í sárum eftir djöfulganginn í haust og það væri meiriháttar katastrófa fyrir alla flokkana ef Jakob og Ólafur F. skora stórt í miðborginni þar sem hægt er að fara í verkefni sem eru mjög sýnileg og borgarbúa hreinlega kalla eftir.

Hvort munu fjórtánmenningarnir láta sjálfa sig eða miðborgina njóta vafans???

Þráinn sagði...

Fyrirgefðu nafnlaus minn, en ég hef ekki beðið nokkurn lifandi mann um að gera átak í Miðborginni frekar en öðrum hverfum þessarar vanræktu og niðurdröbbuðu borgar sem á skilið betri stjórnendur frá hægri og vinstri.
Mín skoðun á þessu máli fer saman með ritstjórnargrein sem birtist á baggalutur.is:

TUÐ, TUÐ, TUÐ
ENTER — FORYSTUGREIN
Eru engin takmörk fyrir tuðflæði þessarar þjóðar?

Mér væri sama þó fráskilinn síamstvíburi Ólafs F. Magnússonar væri tekinn við sem stórvesír yfir miðborginni. Og mér væri rennislétt sama þó hann fengi sjálft Þjóðleikhúsið að launum, jafnvel Hverfisgötuna alla - kæmi hann einhverju í verk.

Það er þó andskotakornið verið að gera eitthvað annað í þessu dauðvona tjarnsokkna ráðhúsi en að sprengja meirihluta, brýna hnífa og máta stóla. Í fyrsta skipti í langan tíma.

Það er þó í öllu falli lífsmark með Jakobi Frímanni Magnússyni - annað en ómálga uppvakningunum sem ráfa þar um ganga dags daglega og svara ekki svo mikið sem í síma.

Ég lái sannarlega ekki Ólafi Effi að hóa í vin sinn Jakob til að leika við sig - fyrst enginn annar nennir því."

Nafnlaus sagði...

Þarna erum við sammála og er í raun löngu tímabært, að fá utanaðkomandi menn, sem þorir að hafa skoðanir og framkvæma hlutina til starfa í niðurnjörfuðu kerfi, hvar embættismenn spekulera miklu frekar í, að blása út ,,sína" stofnun, frekar en leita greiðfærra leiða út úr vandanum.

Nóg er komið með umræðustjórnmálin í minni ástsælu Miðborg, við sjáum og upplifum, tuil hvers þau leiða.

Jakob kemur stuði í liðið og vonandi fær hann boðvald til, að hreinsa þetta ,,nadlit" Íslands sem fyrst.

Miðbæjaríhaldið
Bjarni K

Nafnlaus sagði...

Vér gjörum kunnugt:

"Heiðarleika borgarstjóra í þessum efnum sem og öðrum skal ekki draga í efa og er óskað eindregið eftir að nú fáist vinnufriður svo hægt sé að sinna mikilvægum málefnum sem bíða úrlausna," að því er segir í tilkynningu frá aðstoðarmanni borgarstjóra.

Geðþóttavald á upp á pallborðið hjá Mörlandanum.

Nafnlaus sagði...

Æðislegt ! Legg til að Jakob verði síðan ráðinn í hverfið mitt (Háaleitishverfi), þar vantar bæði gangbrautavörð og einhvern til að fjarlægja rusl og mála yfir veggjakrot.