föstudagur, 9. maí 2008

Talsmaður Seðlabankans talar tungum


Einhvers staðar var verið að tala um að sannleikurinn muni gera menn frjálsa. Leiðin að sannleikanum virðist vera mislöng eftir því hvar menn eru staddir.

Sérstaklega er leiðin að sannleikanum löng og krókótt hjá þeim starfsmönnum Seðlabankans sem hafa eitthvert vit á á efnahagsmálum. Í örstuttu máli er leiðin sú að tala við þá á ensku, þýða útkomuna á þýsku og þýða svo þýskuna aftur á ensku og snara þessu að lokum yfir á íslensku.

Eftir þessa afkóðun kemur í ljós "að krónan sé valdur að óstöðugleika í íslensku efnahagslífi, og að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru myndu færa landinu meiri stöðugleika."

Og: “Aðalvandinn hjá okkur felst í því að koma stöðugleika á gjaldmiðilinn, og til þess þurfum við að skapa traust á íslensku krónunni, Ef traustið glatast alveg þá festumst við í eyðileggjandi vítahring, sem myndi valda frekara falli krónunnar og valda enn meiri verðbólgu."

Starfsmaður Seðlabankans sem er grunaður um að hafa sagt sannleikann telur það sér til málsbóta að sannleikurinn kunni að hafa brenglast á hinni löngu ensk-þýsk-ensk-íslensku leið.

Frá sjónarmiði guðfræðinnar er það mjög merkilegt að talsmaður heils seðlabanka skuli skyndilega "tala tungum". Einnig er athyglisvert að þetta skuli gerast svo skömmu fyrir hvítasunnu.


Engin ummæli: