mánudagur, 5. maí 2008

Ódýrt fjármagn, ódýrt áfengi, sólarlandaferðir og deleríum tremensBandaríski millinn Warren Buffett segir að það versta sé afstaðið í fjármálakreppunni á Wall Street, en almenningur muni enn um sinn finna fyrir þrengingum. Enn séu „erfiðir tímar“ framundan hjá handhöfum húsnæðislána. Þetta segir Mogginn sem eins og flestir sem trúa á það sem mölur og ryð fá grandað hefur tekið Warren Buffet í helgra manna tölu.


Þetta er sennilega rétt hjá Buffett um ástandið í Bandaríkjunum. Versta kreppan er liðin hjá. Nema auðvitað fyrir almenning.

Staðan á Íslandi er þó ekki að öllu leyti eins og í Bandaríkjunum. Til dæmis er ennþá mjög hart í ári hjá íslenskum milljarðamæringum, fjárfestum og Glitni og er talið að einhverjir þessara séu enn í lífshættu.

Ódýr lán í útlöndum höfðu sömu áhrif á íslensk fjármálaungmenni og ódýr vínföngin höfðu á forfeður þeirra þegar sólarlandaferðir hófust hér á landi. 

Deleríum tremens og blindu af völdum eitraðs alkóhóls er reynt að lækna með því að gefa viðkomandi ómengaðan vínanda á kostnað sjúkrasamlagsins. 

Deleríum tremens eftir fjármálafyllerí og blindu eftir ótæpilega neyslu eitraðs fjármagns er helst hægt að lækna með því að gefa sjúklingunum gull í æð á bráðavakt Seðlabankans.

Í stuttu máli má því segja að kreppunni sé ekki enn lokið. Hún kemur hart niður á fjármálamönnum og fjármálastofnunum, en áhrif hennar á almenning eru ekki teljandi. Launafólk getur þó misst húsnæði sem það hefði aldrei átt að kaupa og getur kennt sjálfu sér um að hafa haldið að almenningi væri boðið ókeypis í hinn mikla fjármálafagnað sem þótti enn magnaðri skemmtun en bæði Jörfagleðin til forna og dansinn í Hruna.

Kreppuástand er það ástand sem kemur upp þegar afmenningur verður að taka afleiðingum þess að milljarðamæringar hafa verið að skemmta sér. 

Þensluástand er hins vegar það ástand sem varir meðan milljarðamæringar hafa enn þrek til að skemmta sér. 

Í þensluástandi stendur almenningi til boða að fá lán til að kaupa það sem hann hefur ekki efni á að kaupa. 

Í kreppu þarf almenningur að borga lánin og endurnýja gullbirgðirnar á slysavakt Seðlabankans svo að hægt sé að gefa milljarðamæringunum innspýtingu á kostnað sjúkrasamlags almennings.


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er svo eitt enn í þessu. Fjármálaungmennin halda það það ástand sem á Íslandi er sé ekki þeim að kenna heldur vandamálum í USA.
Þetta veldur því að þegar losnar um verður haldið áfram á sömu braut og áður. M.o.o það verður ekki lært neitt af reynsunni.

Nafnlaus sagði...

Banki : Stofnun sem lánar þér regnhlíf í sólskini , en vill fá hana aftur um leið og fer að rigna.

Þráinn sagði...

Til að geta lamið þig í hausinn með henni.