miðvikudagur, 14. maí 2008

Eflum orðstír Íslands - ekki ímynd


Í um fjörtutíu löndum eru stórar flóttamannabúðir fyrir fólk sem hefur af einhverjum ástæðum hrakist frá heimkynnum sínum. Milljónir barna eiga ekkert framtíðarland utan flóttamannabúða.


Það væri því vel til fundið að Íslendingar hættu við hið vonlausa framboð sitt til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og gengju til liðs við það hjálparstarfs sem unnið er í flóttamannabúðunum.

Þótt við tækjum hér á móti þúsund manna hópi af flóttafólki frá ýmsum löndum sæi varla högg á vatni. En fordæmi Íslands gæti haft áhrif á aðrar þjóðir.

Þess vegna ætti utanríkisráðuneytið að snúa sér frá ímyndarsmíð sinni í þágu lands og þjóðar og taka til við að breiða orðstír hennar út um veröldina með góðum verkum.

Ímynd er hol að innan og sannfærir engan, en góður orðstír deyr aldrei.

Utanríkisstefna Íslands á að vera: BRÆÐUR OG SYSTUR, því að það erum við öll, jarðarbúarnir þótt heimilisfriðurinn sé misjafn.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er góð ábending um það verðfall sem orðið "ímynd" hefur þurft að þola í viðskiptafræðum. Raunveruleg hugsun sem býr að baki orðinu var upphaflega "orðstír" og slíkt býr maður ekki til, heldur ávinnur sér með dugnaði á lengri tíma. En svo koma þeir sem alltaf vilja stytta sér leið og töldu að ímynd mætti einfaldlega hanna og framleiða og koma síðan haganlega fyrir á öxlum sér á tyllidögum og fyrir myndatökur, svona rétt til að fela drullugallann sem unnið var í dags daglega. Heiðarlegt fólk, í viðskiptum eða stjórnmálum, gerir sér hinsvegar grein fyrir því að orðstír deyr aldrei en ímynd má hafa ofan á brauð.
Þetta vita meira að segja sumir almannatenglar, hvað sem Jónas Kristjánsson segir.

Þráinn sagði...

Auðvitað eru til heiðarlegir almannatenglar - innan um alla leiktjaldamálarana og spunarokkana.

Nafnlaus sagði...

Já, já. Það eru meirðasegja til heiðarlegir þjófar :)

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Hrói Höttur?

Balzac