fimmtudagur, 1. maí 2008

Ókeypis heilaaðgerð



Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra er mjög ánægður með samkomulagið við hjúkrunarfræðingana og geislafræðingana á Landspítalanum, sem náðist í gær –  það hefur Mogginn eftir ráðherranum. 

Samkomulagið sem heilbrigðisráðherrann er svona ánægður með er að stjórn Lansans dregur einfaldlega til baka allar tilskipanir um breytta starfstilhögun hjúkrunarfræðinga og hafa hjúkkurnar því unnið fullnaðarsigur í baráttu sinni við fulltrúa heilbrigðisráðherra.

Ráðherrar eru yfirleitt mjög ánægðir með störf sín, unnin og óunnin, en heilbrigðisráðherrann er samt maður dagsins – sem er í senn Alþjóðadagur verkalýðsins og uppstigningardagur – og samgleðst hjúkrunarfræðingunum innilega fyrir að þeir skyldu hafna tilskipunum hans að öllu leyti.

Alþýðusamband Ísland ætti nú að draga ákveðinn lærdóm af samstöðu hjúkrunarfræðinganna og gleðja fleiri ráðherra í ferðaklúbbnum Ríkisstjórn Íslands með því að koma fyrir þá vitinu.

Erlendir sérfræðingar telja að það jafngildi góðri heilaaðgerð fyrir stjórnmálamenn að kynnast svona samstöðu hjá venjulegu fólki - jafnvel fyrir íslenska stjórnmálamenn.

Engin ummæli: