“Dómsmálaráðuneytið telur ósannað að fullyrðingar lögreglustjóra LRH þess efnis, að nektardansmeyjar séu oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa, eigi við um starfsemi Goldfinger. Hefur ráðuneytið því fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á Goldfinger.”
Þetta stendur á mbl.is í dag og auk þess er haft eftir Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni og talsmanni Geira í Goldfinger “að ekki hafi verið ætlun löggjafans að leggja í hendur einstakra umsagnaraðila að meta hvort nektardans sé „góður eða vondur“ eða hvar mannúðin eða almannahagsmunir liggi í málum sem þessum.”
Hvað er það þá sem sem löggan á að meta? Hún ætti að þekkja mun á góðu og illu frá starfi sínu nætur og daga. Ef umsögn lögreglu verður ógild við að vera gildishlaðin þá er dómsmálaráðuneytið að vaða reyk í baráttu sinni fyrir því að súlustaðir njóti sömu velvildar og safnaðarheimili.
Ef dómsmálaráðuneyti Íslands heldur því fram enn þann dag í dag að nektardansmeyjar séu ekki “oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa” ættu þeir sem þar starfa að taka sosum einn dag í að afla sér upplýsinga um þessi mál erlendis frá – áður en ráðuneytið úrskurðar að Geiri í Goldfinger sé undantekningin sem sannar regluna. Það kemur sér örugglega vel fyrir Geira að eiga hauk í horni þar sem BÍBÍ í dómsmálaráðuneytinu er.
Húrra fyrir lögreglustjóra LRH og starfsmönnum hans! Það getur verið að BÍBÍ og dómsmálaráðuneytið vilji vernda Geira en LRH vill vernda stúlkurnar og okkur fyrir aðfluttri skipulagðri glæpastarfsemi.
7 ummæli:
Gunnar I. Birgisson er að minnsta kosti ekki vondur við stúlkurnar hans Geira. Ó nei. Hann er góður við þær.
Rómverji
Þekki örlítið til Geira í Goldfinger, of ef einhver hefur unnið gegn mansali og misnotkun á sínum dansmeyjum, þá er það hann. En auðvitað má ekki segja það - það er of mikið gegn hinni pólitísku rétthugsun, sem bannar konum að sýna líkama sinn og fá greitt fyrir það.
Mér finnst þetta hið besta mál. Það hlýtur að þurfa einhver sönnunargögn fyrir "misneyting, mansal og glæpi" þótt perrapleisið Goldfinger eigi í hlut. Menn á mótórhjólum er td. ekki endilega eiturlyfjasalar þótt slíkt fari stundum saman útí hinum stóra fjölbreytta heimi. Löggan á að framfylgja lögunum en ekki eigin skoðunum og/eða fordómum.
Sæll nafnlaus; svo að súludans hjá Geira er stundaður af frjálsum stúlkum að eigin frumkvæði vegna áhuga á súludansi sem "heiðarlegri" atvinnugrein?
Sé þetta rétt er þetta einsdæmi í heiminum...
Mér þykir þú harla vel plöggaður inn í kosmosið ef þú ætlar að fara að fullyrða að hvergi snúist stúlkur um súlur að eigin frumkvæði. Varðandi frelsi þeirra sem um súlur snúast þá er það einmitt verkefni löggæslunnar að sanna ef uppá það vantar. Menn geta svo hengt sig í skilgreiningar á frelsi og hvort neyð eigi hlut að máli. Sjálfum finnst mér óeðlilegt ef fólk þarf að fara að sanna sig frjálst til að sverja af sér fordóma annarra. Það myndi sjálfsagt flestum mjög erfitt að sverja af sér alla ánauð.
Mansal, verslun með þræla, hefur aldrei í sögu mannkynsins staðið með slíkum blóma sem nú um stundir; enda hafa karlmenn sem líta á kvenfólk sem vöru uppgötvað að ein kona í vændi getur halað inn ótrúlegar upphæðir við að svala losta efnaðra karlmanna í efnuðum löndum.
Aldrei í sögunni hafa fleiri konur verið seldar/leigðar mansali.
Aldrei í sögunni hefur þrælaiðnaðurinn verið jafnvel skipulagður.
Og í fyrsta sinn í sögunni frá því að þrælahald var bannað samkvæmt lögum hafa þrælahaldarar nútímans aðgang að frábærum lögfræðingum sem ýmist útskýra að vændiskonurnar séu ekki vændiskonur heldur listdansarar og ef þær hoppi upp í rúm hjá sveittum og drukknum miðaldra mönnum, sosum fjórum til sex á kvöldi, sé það eingöngu vegna þess að stúlkunum lítist vel á þessa gaura og geri þetta í sjálfboðavinnu af einskærum áhuga.
Þrælahald og mansal í nútímanum eru ekki fordómar, heldur svívirðileg staðreynd, sem helgast af því að samviskulausir psýkópatar nytja stúlkurnar til síðasta blóðdropa, brosa við fjölmiðlum og segjast gera þetta til að efla fjölbreytta skemmtun og alþjóðleg samskipti.
Já, og ofanskráðu til viðbótar er ég ágætlega "plöggaður inn í kosmosið", það er kosmos alþjóðlegrar glæpastarfsemi.
Vegna þess að ég starfa sumpart sem rithöfundur hef ég lagt mig eftir að kynna mér þróun glæpa og alþjóðlegrar glæpastarfsemi - sem er svo umfangsmikil að hún ræður yfir um 20% af öllu fjármagni í veröldinni. Við búum ekki lengur á afskekktri eyðieyju, heldur í ríku landi, svo að hér er eftir töluverðu að slægjast fyrir stórhuga glæpamenn sem eiga auðvelt með að finna sér fúsa útibússtjóra hér á landi, íslenska og erlenda.
Skrifa ummæli