föstudagur, 2. maí 2008

Gleðibanki Geira í stað Kaupþings

Í ráði er að breyta Kaupþingi, áður Búnaðarbanka, við Austurstræti 5 í Reykjavík í Gleðibanka (eða Rússneskan banka) sem Ásgeir Þór Davíðsson alias Geiri á Goldfinger mun reka. 

Margir Reykvíkingar muna eftir Ásgeiri síðan hann rak veitingastaðinn Maxíms í Hafnarstræti. Sú starfsemi var ekki vinsæl meðal íbúa miðborgarinnar og flutti forstjórinn þá margháttaða starfsemi til Kópavogs undir verndarvæng Gunnars Kópavogsstjóra.
 
Ekki er vitað hverskonar gleðskapur verður í Gleðibanka Geira en í samtali við Fréttablaðið sagði athafnamaðurinn: "Hvað sem menn halda þá fer ég eftir lögum og reglum."
 
Fyrir utan að nefna þessa ánægjulegu stefnubreytingu á lífi sínu er athafnamaðurinn fáorður um fyrirhugaða starfsemi - en hvort honum verður fagnað af öðrum en undirheimaliðinu í miðbæ Reykjavíkur mun koma í ljós og hvort starfsemi Gleðibanka Geira muni varpa ljóma sögu Búnaðarbanka Íslands og þeirra sem keyptu þann banka og breyttu honum í Kaupþing Banka.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...ekki er þó verið að umturna hinu fornkveðna:

"Leggur ekkert inn, tekur bara út"

Má kannski einu gilda því líkast fer eins og skáldið sagði: "Réttlætið það sigraði að lokum, og bankinn endurheimti féð."

Nafnlaus sagði...

Svona ganga kaupin fyrir sig á eyrinni. Kaupþing banki, stærsti banki Íslendinga, er samt minni en lítill Svisslenskur banki, og á að skammast sín.

Ég legg til að við stofnum öll sameigna banka, sem við nefnum Samvinnubankann, og byrjum upp á nýtt.