miðvikudagur, 21. maí 2008

Tvö andlit íslenskra utanríkismála


Það er töluvert mikið í lagt hjá ekki stærra ríki en Íslandi að vera með tvær utanríkisstefnur í einu. Aðra í boði forseta Íslands og hina á vegum utanríkisráðuneytisins og í boði Flokksins.

            Persónulega líst mér heldur skár á utanríkisstefnu forsetans um samstarf smáríkja en mikilmennskudrauma utanríkisráðuneytisins og Flokksins um Öryggisráð, virka ímyndarhönnun og réttlætingu á hvaladrápi.

            Hins vegar er ég ekki sannfærður um ágæti þess að hafa tvær utanríkisstefnur og efast um að það sé fjárhagslega hagkvæmt að hafa tvær stofnanir í fullu starfi við að framfylgja þeim.

            Ef utanríkisráðherrann okkar tæki upp það nýmæli að hafa aðeins eina skoðun á hverju máli gæti vel farið svo að hægt væri að samræma stefnur utanríkisráðuneytisins og forsetaembættisins og fylgja færri stefnum eftir af tvöföldum krafti fyrir hálft verð.

Einnig mundi það gera útlendingum auðveldara að átta sig á Íslendingum ef við tækjum upp á því að segja oinberlega aðeins það sem við meinum og þjóðin vill.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Utanríkismálastefna Ingibjargar Sólrúnar í varnarmálum er slæm, Kínastefna forsetans er sínu verri.
Báðar styðja þær ofbeldi. Sú fyrri hernaðarofbeldi, og sú síðari ofbeldi gegn kínverskum börnum og konum sérstaklega, sem eru látin þræla myrkrana á milli á smánarlaunum og án allra mannréttinda.

Kveðja,
Guttormur Sigurðsson