mánudagur, 7. apríl 2008

Staðarval fyrir eldflaugar í umhverfismat


Grátt eða blátt gaman?

Stjórnmálamenn eru stundum gamansamir.
Til dæmis segir dómsmálaráðherrann okkar á blogginu sínu:

"Snemma vetrar ritaði Lothar Rühl, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Þýskalands, um eldflaugavarnarkerfið í Frankfurter Algemeine Zeitung og nefndi Ísland til sögunnar auk Bretlands. Þar mun vísað til umræðna um slíkt kerfi, væri því ætlað að tryggja varnir gegn eldlaugum Rússa. Kerfinu í Póllandi og Tékklandi er beint gegn Íran og ríkjum þar um slóðir."

Það þykir flottur brandari hjá Lothari Rühl að bandaríska eldflugakerfinu í Póllandi og Tékklandi sé beint "gegn Íran og ríkjum þar um slóðir." Hehehe!

En án gamans þá þarf auðvitað að miða eins miklu og hægt er af eldflaugum á Rússa svo að þeir verði til friðs - og þá veitir ekki af að setja upp fáeinar flaugar á Íslandi.

Staðarvalið fyrir eldflaugarnar þarf sennilega að fara í umhverfismat hjá Samfylkingarráðherranum í umhverfisráðuneytinu, sem verður þá nokkur vandi á höndum því að í stefnuskrá Samfylkingarinnar hefur alveg gleymst að setja fram hugmyndir um hvar sé best að staðsetja bandarískar eldflaugar á Íslandi.

Sjálfur mundi ég stinga upp á því að setja þessar eldflaugar upp í Fljótshlíðinni, en þar bjuggu miklir kappar fyrr á tímum og áttu góð vopn, samanber atgeir Gunnars á Hlíðarenda.

Þetta staðarval hefði þann kost með sér að þegar dómsmálaráðherrann okkar skýst austur í sumarbústaðinn sinn gæti hann litið eftir því að allt sé í lagi með flaugarnar og þær snúi örugglega í rétta átt og fljúgi hratt og örugglega eins og örvar af boga Gunnars forðum tíð. Og ekki mun Ingibjörg Sólrún bregðast dómsmálaráðherranum eins Hallgerður Gunnari forðum með því að neita honum um lokk úr hári sér heldur sjá til þess að hann hafi nógan aðgang að skotfærum í Fljótshlíðinni.

Næst þegar Geir Haarde hittir Pútín sem skellti skolleyrum við öllu tali um óþarfa rússneska flugumferð í námunda við Ísland þá veit Pútín að á Íslandi búa stjórnmálamenn sem eru menn fyrir sinn hatt og sínar bandarísku eldflaugar.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Farsælast er að staðarval vegna eldflauga sé líkt og staðarval vegna álbræðslna, það er í höndum heimamanna. Þá fá bústólpar, framsýnir menn og framtakssamir í heimabyggð að njóta sín.

Fljótshlíðin er sannarlega dægilegur staður fyrir eldflaugar. Og eitt er víst, að ekki stæði á þingmönnum Framsóknarflokksins á Suðurlandi að hagræða þeim þar. Þætti enda karlmannlegt að Pútín fengi, ef svo bæri undir, að kenna á því "að atgeir hans var heima."

Nafnlaus sagði...

Rómverji gleymdi að kvitta fyrir athugasemdina að ofan.