sunnudagur, 20. apríl 2008

Útreikningar á glæpahneigð útlendinga

Spennandi útreikningar eru nú í gangi.
 
Hæfustu tölfræðingar sitja nú með sveittan skallann yfir skýrslum um afbrot á Íslandi (sem lögreglan hefur haft pata af) og reynir að reikna út hvort glæpahneigð sé meiri meðal aðfluttra útlendinga en innfæddra Íslendinga.
 
Það hefur komið í ljós að fleiri útlendingar fremja nú afbrot á Íslandi en meðan engir útlendingar voru á landinu aðrir en Balthazar Samper listmálari og Páll Pampichler Pálsson tónlistarmaður sem hvorugur var grunaður um glæpastarfsemi.
 
Hinar nýju tölur um glæpahneigð útlendinga er hægt að túlka á marga vegu, en fyrstu rannsóknir benda til þess að stórir hópar kynsveltra karlmanna á aldrinum 20 til 40 ára geti átt til að lenda í áflogum á fylleríum, einkum ef þeir eru útlendingar.
 
Fyrstu niðurstöður í útreikningum á glæpahneigð útlendinga benda til þess að
1) útlendingar séu djöflar í mannsmynd
2) útlendingar séu englar í mannsmynd
3) útlendingar séu venjulegt fólk - en flutningur fólks milli landa og tungumálasvæða hafi bæði kosti og galla.

5 ummæli:

ingó sagði...

Já ég aðhyllist 3) en það er að verða öfga-skoðun hér á landi.

Nafnlaus sagði...

Briljant vinkill. Verst að Jónas blaðamannamentorundbesserwisser er þér ekki sammála.

Þráinn sagði...

Blessaður Ingó. Já, ég geri mér grein fyrir því að ég er öfgafullur miðjumaður. Og, Gísli, það kemur jafn vel fyrir okkar bestu blaðamenn að gleypa tölfræðilegar upplýsingar hráar.

Sveinn Ólafsson sagði...

Það má geta þess að bæði Baltasar og Páll voru lengi undir eftirliti yfirvalda, grunaðir um einbeittan vilja til að brjóta nafnalögin. Harðfylgni yfirvalda á þessum árum gagnvart Baltasar rataði í sögubækur.

Þráinn sagði...

Það er vonandi verið að fylgjast með þeim ennþá. Öll aðstaða til að njósna um fólk hefur stórbatnað hér á landi að undanförnu.