fimmtudagur, 3. apríl 2008

Nei, Hannes, við þurfum ekki "smá málfrelsi"


Hannes Hólmsteinn spyr:

"Hvernig er það, eigum við ekki að leyfa smá málfrelsi að blakta eins og kerti?"

Nei, aldeilis ekki.

Við skulum varðveita málfrelsið eins og kyndil sem kveikir þann varðeld sem ornar þjóðinni og heldur draugum og ófreskjum næturinnar í hæfilegri fjarlægð. Við skulum kenna dómstólum þjóðarinnar að málfrelsi er bjartur, logandi og eilífur eldur - ekki skíma frá vasalugt eða kertisstubbi.

Við skulum virða skoðanir hvers annars, hafa vísindaleg vinnubrögð í heiðri ef við viljum vera vísindamenn og forðast sérgæsku og ófyrirleitni. Og umfram allt hroka, valdagræðgi, nepotisma, sleggjudóma, mont og oflæti.

Fyrir rithöfunda, blaðamenn og þjóðina er ekki nóg að smá málfrelsi blakti eins og á skari.

Við vinnum verk okkar með þjóðarhag að leiðarljósi og erum laus við þá freistingu sem launakerfispunktar háskólans reynast þeim sem eiga erfitt með að standast freistingar.

Stöndum vörð um málfrelsi. Leyfum skímunni á kertisstubbum ritþjófanna að brenna út, sú skíma er villuljós, þeirra sem kjósa að starfa þar sem dimman ríkir.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sá kastljósþátt Hannesar.
Átta mig ekki á því hvers vegna Sigmar var í þættinum hans.
Vantaði bara reikningsnúmerið á skjáinn.

Nafnlaus sagði...

Thad er íronískt ad thú fordæmir meintan ritstuld, líkt og margur hefir gert á netsídum í kjölfar dómsins yfir HHG, en med thessum pistli er mynd af kyndilbera sem thú hefir vafalaust fengid "lánadan" af einhverri sídunni án thess ad geta til um thad. Thú ert ekki einn um slík "vinnubrögd", thví myndhöfundar eru hlunnfardir hvarvetna hin seinni ár. Enginn talar um "stuld" thann.

Þráinn sagði...

Já, það er satt. Ég er að reyna að taka mig á. Samt þegar ég sé girnilegar myndir á netinu er ég ekki vel frómur.
Það er búið að sýna svo margar kvikmyndir eftir mig án höfundargreiðslna að ég er farinn að hafa ánægju af að einhver skuli nenna að skoða þær. Ég vil bara ekki að þær séu misnotaðar og afskræmdar.

Þráinn sagði...

P.S.
Reyndar var ekki um "meintan" ritstuld að ræða hjá Hannesi. Ég held að það sé búið að dæma í málinu - en þú ert kannski að meina eitthvað annað sem ekki er búið að dæma í.

Nafnlaus sagði...

Þótt Hæstiréttur hafi komist að þessari niðurstöðu, þá finnst mér ekki hafa verið um eiginlegan ritstuld að ræða í tilfelli HHG, það blasir enda við öllum sem lesa bókina að hann notar þar texta úr verkum HKL, enda til þeirra vísað í heimildaksrá. Það er umdeilanlegt að gæsalappir og beinar tilvísanir neðst á síðum voru e.t.v. spart brúkaðar, en vísvitandi ritstuldur er þetta ekki í mínum huga. Hins vegar verður auðvitað að una þessum dómi og mér sýnist HHG ætla að gera það nokkuð auðmjúklega og boðar að auki betran og bót.

Hitt er svo annað og alvarlegara mál í mínum huga, en það er sá stuldur sem á sér stað á myndverkum og tónverkum dag hvern í skjóli frjálsræðis og gott ef ekki málfrelsis. Ég sé ALLS ENGA meinbugi á því að böndum verði komið á alla þá sem uppvísir verða af því að stuðla að dreifingu og hreinlega stuldi á bíómyndum, tónlist, o.s.frv. Ég tel t.d. meiri þörf á því að slíkir kónar hljóti dóma og sektir, en HHG fyrir það sem í besta falli mætti kalla kauðslegt klúður af hans hálfu.

Lifðu annars heill.

Þráinn sagði...

Nafnlaus minn, hafðu það sem best sjálfur. Og þakka þér fyrir að skrifa svona langt komment. Ég hefði haft gaman af því ef nafnið þitt hefði fengið að fylgja með.
Bestu kveðjur.

Margrét Rósa Sigurðardóttir sagði...
Höfundurinn hefur fjarlægt þessi ummæli.