föstudagur, 25. apríl 2008

Aukið valfrelsi í fréttum

Breska forsætisráðuneytið er nú að rannsaka leiðir til að stjórnmálamenn geti gert öllum til hæfis.
 
Aðferðin felst í því að senda út tvenns konar fréttir af öllu sem fer fram eða fer ekki fram í ráðuneytinu. Ef þessi tilraun heppnast vel má búast við að valkostum fjölgi verulega á næstunni og bráðlega verði boðið upp á þrenns konar fréttir, og ekki síðan en í júlí verði boðið upp á nægilega marga fréttavalkosti til að gera öllum til hæfis.
 
Fyrsta tilraunaútsendingin var í gær þegar forsætisráðherra lítils lands kom í heimsókn til Gordons Browns.
 
Um þann fund sagði breska forsætisráðuneytið:
 
a) Litli forsætisráðherrann spurði hvort hann fengi ekki gott veður þegar hann kæmi innan tíðar aftur norðan úr Íshafinu með umsóknaraðild um Evrópusambandsaðild upp á vasann.
 
b) Litli forsætisráðherrann harmaði að Bretar skyldu ekki hafa náð að vinna sér sæti í Evrópumeistarakeppni knattspyrnuliða í sumar og sagðist halda með breskum knattspyrnuliðum. Aldrei var minnst á Evrópusambandið eftir að þessi orð féllu.

Engin ummæli: