fimmtudagur, 24. apríl 2008

Vetraríþrótt eða alhliða heilsurækt?


Gleðilegt sumar!
 
Nú kemur í ljós hvort bloggið festir sig í sessi sem alhliða andleg heilsurækt sem hægt er að stunda af sömu heiðríkju hugans vetur, sumar, vor og haust; svar Vesturlanda við jógaiðkun austrænna spekinga.
 
Eða hvort blogg er einkum stundað af súrum og súrefnissnauðum innisetuverum sér til hugsvölunar í vetrarmyrkri þegar óveðursskýin hrannast upp í huganum.
 
Trukkabílstjórum, lögreglustjórum, ofbeldissjúkum sérsveitarmönnum og dómsmálaráðherra óska ég heilbrigðrar skynsemi og friðar og þeim síðastnefnda góðra eftirlauna.
 
Ríkisstjórninni óska ég þess að það vaxi á hana eyru nógu næm til að hlusta á fólkið í landinu og að stund gefist til þess á lesbjörtu sumri að renna augunum yfir óuppfyllt kosningaloforð. Stjórnin á vonandi eftir að þroskast, því að í vetur hefur hún minnt á erfiðan ungling sem hefur sig lítið í frammi við heimilishaldið en stundar félags- og næturlíf af þeim mun meira kappi, lítur aldrei í bók og telur sig vita alla hluti betur en allir aðrir.
 
Þjóðinni óska ég gleðilegs sumars og áhyggjuleysis.
 

Engin ummæli: