laugardagur, 5. apríl 2008

Öskrandi bongó! Samkeppni á fjölmiðlamarkaði

Öskrandi bongó í Bláfjöllum

"Í Bláfjöllum í dag er öskrandi bongó blíða, heiðskírt og sól, maður fengi ekki betra færi þó svo maður væri í Ölpunum,"segja starfsmenn skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Þar er nú heiðskírt, stillt veður og fínasta skíðafæri.

Þessar upplýsingar er að finna að visir.is, og er það ánægjulegt nýmæli að blaðamenn skuli vera tvítyngdir, þannig að fréttir eru skrifaðar á tveimur tungumálum.

"Öskrandi bongó" er hálfvitatungumál sem segir hálfvitum (sem eru þó fæstir læsir) það sama og blaðamaðurinn útskýrir fyrir venjulegum lesendum strax á eftir: "heiðskírt og sól".

Tvítyngd fréttaþjónustu fyrir hálfvita og venjulegan almúga er til marks um harða samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

 

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Óttalagt nagg er þetta. Á maðurinn ekki að sítera rétt í sorsið?

Ágúst Borgþór sagði...

Nei, ég er innilega sammála Þráni. Það getur verið skemmtilegt að taka svona til orða við kunningja (mér finnst a.m.k. stundum gaman að vera hálfviti svona prívat) en það er einstaklega ófagmannlegt að birta svona orðalag í frétt. Þetta er því miður bara eitt af ótalmörgum daglegum dæmum um slöpp vinnubrögð í fréttaskrifum á netmiðlum hér á landi, sérstaklega á visir.is. Líklega er fjárskortur meginorsökin en þó finnst manni að t.d. fólk eins og Óli Tynes ætti að geta gert miklu betur en raun ber vitni.

Þráinn sagði...

Halló Hrannar. Takk fyrir fyndna athugasemd. En varðandi að "sítera í sorsið" þá er fremur sjaldgæft að góðir fréttamenn vitni orðrétt í viðmælendur sína og allrasíst í fréttaviðtölum. Ef maður lendir í því að taka viðtal við einhvern sem er varla talandi er nauðsynlegt að hefja getuleysið til tjáningar að minnsta kosti upp á það stig að almennir lesendur skilji hvað átt var við.
Og Ágúst Borgþór takk fyrir að tjá þig. Þú kannt íslensku. Ég var að lesa rosalega fína smásögu eftir þig. Fann hana á netinu. Man samt ekki hvar. Okkar á milli sagt er ég eiginlega alveg búinn að missa minnið.

Ágúst Borgþór sagði...

http://blogg.visir.is/agustborgthor/2008/01/05/smasaga-sem-birtist-i-timaritinu-sky-si%c3%b0asta-sumar/

Takk fyrir þetta, Þráinn. Var sagan kannski þarna, á ofangreindum tengli?

Þráinn sagði...

Já. Þetta er sagan. Mér finnst sagan mjög góð og lokasetningin finnst mér fullkomlega brilljant. Hún er svona, þú fyrirgefur að ég skuli birta þetta í leyfisleysi en þó innan gæsalappa:) :
"Allt í einu fannst mér þessi íbúð vera eins og öll önnur heimili: hlýtt skjól sem gott er að hverfa til en nauðsynlegt að losna burt frá ef maður vill ekki missa vitið. Um leið og ég ræsti bílinn hugsaði ég með mér að allir þyrftu að eiga sér stað sem þeir þrá að yfirgefa."

Ágúst Borgþór sagði...

Þetta gleður mig. Gaman að þessu.