mánudagur, 14. apríl 2008

Draugahöllin Svörtuloft - af reimleikunum í Seðlabankanum


Viðbrögð þeirra aðila sem eiga að bera ábyrgðina við hinni glæfralegu ásýnd Íslands í efnahagsmálum virðast vera fólgin í því "að smæla framan í heiminn" og halda því fram að nokkuð stíf ímyndarvinna geti forðað okkur frá sannleikanum og afleiðingum hans.

Fyrir þessa aðila kann það ekki góðri lukku að stýra að horfast í augu við sannleikann - sem er einfaldlega sá að tveir helstu ábyrgðarmenn efnahagsástandsins, Geir Haarde, fyrrum fjármálaráðherra og Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra.

Það þarf mikla spunarokka og ímyndarsmiði til að leiða athyglina frá þessari staðreynd.

Nú hefur Þorvaldur Gylfason prófessor unnið sér það til óhelgi að segja hinn skaðlega sannleika og fyrir bragðið er Hannes Hólmsteinn sá virti fræðimaður og launahækkandi seðlabankaráðsmaður farinn að glefsa í hælana á honum.

Egill Helgason velti upp þeirri spurningu gamla safnaðarformanns kratanna, Jóns Baldvins, hvort vekja skuli Jón Sigurðsson sem stundum var kallaður þjóðhagi upp úr pólitískri gröf sinni og setja hann yfir Seðlabankann.

Fyrir mína parta finnst mér nóg komið af pólitískum afturgöngum og draugaganginum í Seðlabanka Íslands.

Þorvaldur Gylfason prófessor hefur hugrekki og skarpskyggni til að horfast í augu við sannleikann. Kannski hann sé rétti maðurinn til að kveða niður draugaganginn.

Sömuleiðis væri kannski skynsamlegt fyrir íslensk stjórnvöld að afpanta farmiðana sína til Kína, leyfa Ólympíuleikunum að hafa sinn gang, og snúa athyglinni að reimleikunum í Seðlabankanum og íslensku efnahagslífi.

Engin ummæli: