Stjórnmálaflokkarnir sem ættu að vera umræðu- og greiningarmiðstöðvar fyrir pólitískar hugmyndir og þróun hafa brugðist hlutverki sínu. Þeir eru orðnir að útungunarmaskínum fyrir einslitan hóp fólks sem þyrstir í völd, valdanna vegna, og sækist eftir stöðutáknum og sérstökum fríðindum til að aðgreina sig frá almenningi í landinu.
Þetta skynjar viðskiptaráðherra sem nú hefur nú af hreinleik hjartans opnað rifu á huga sinn og sagt að það verði að frelsa Evrópusambandsumræðuna út úr flokkunum sem óttast átök og klofning. Þjóðin muni ráða þessu sjálf að lokum og eigi að gera það.
Evrópusambandið hefur “ekki verið á dagskrá” síðan yfirgangssamur foringi 40% Flokksins lýsti því yfir f “að Evrópusambandsaðild væri ekki á dagskrá.”
Íslenskir stjórnmálaflokkar eru eignarhaldsfélög um atkvæðakvóta í þingkosningnum. Kannski að það komi að því að atkvæðin þreytist á að lenda allt í sömu hugsanamöskvunum kosningar eftir kosningar.
Kannski að það bóli á nýjum pólitískum skilningi í varfærnum athugasemdum hins unga viðskiptaráðherra. Kannski er það að renna upp fyrir honum að kjósendur vilja að Samfylkingin sé sé sósíaldemókratískur flokkur þeirrar tegundar sem við þekkjum frá löndum í kringum okkur – en ekki hallelúja samkoma fyrir “sterkan leiðtoga”, matríarka í þessu tilviki.
Þjóðin verðskuldar betri stjórnmálamenn. Það þýðir að stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist hlutverki sínu sem skólar og uppeldismiðstöðvar. Persónudýrkun og foringjahollusta þyrfti ekki að vera á námsskrá hinna nýju stjórnmálaflokka.
Það sem viðskiptaráðherrann okkar ungi, Björgvin G. Sigurðsson, er að gera í heiðarleik sínum er meira en að óska eftir því að almenningur taki kaleikinn frá stjórnmálaflokkunum og ræði um aðild að Evrópusambandinu. Hann segir okkur að flokkakerfi okkar sé ekki vandanum vaxið.
Þá umræðu hefur almenningur þegar gengið í gegnum, hafandi aðgang að interneti og upplýsingum frá öðrum löndum. Þar sem stjórnmálaforingjar leggja ekki metnað sinn í að fara á bakvið almenning, eins og stjórnmálaforinginn okkar sem hefur ferðast vítt og breitt um veröldina að undanförnu til að ræða ALLS EKKI Evrópusambandið við helstu talsmenn þess og hugmyndafræðinga.
Frelsa þarf stjórnmálin úr gíslingu hjá stjórnmálaflokkunum. Burt með héraðshöfðingja og atkvæðasmala.
Búum okkur til alvöru stjórnmálaflokka í stað þeirra sem eru nú þegar steinrunnir andlega og endurhæfum hina sem enn eru með lífsmarki – ef okkur langar upp á næsta stig lýðræðis sem tekur við af einkavinavæðingu, sjálftöku launa og nepotisma.
4 ummæli:
Þegar vansæld skapast hjá einhverjum með sitjandi stjórnmálamenn þá er gjarnan talað um að skipta þurfi þeim út. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Hið rétta er að til þess að breyta því sem meirihlutinn kýs, þá þarf að skipta um kjósendur.
Líka væri hægt að hugsa sér að setja tímakvóta á stjórnmálamenn, þrjú kjörtímabil á þingi, tvö kjörtímabil sem ráðherra... Eftir þann tíma hafa menn yfirleitt fengið tækifæri til að koma hugsjónamálum sínum á framfæri.
"Búum okkur til alvöru stjórnmálaflokka" segir þú, og gjarnan vildi ég taka undir það. En hér stendur heilt hnífasett í kú: hvaðan eigum við að fá frambjóðendur í þessa nýju flokka?
Svo ótrúlegt sem það kann að virðast núna, er ekki óhugsandi að núverandi stjórnmálamenn hafi byrjað sinn feril velmeinandi og -þenkjandi.
Þó alveg yrði skipt um áhöfn á Alþingi, færi ekki allt í sama farið um leið? Gildir ekki lögmál Churchills um spilingarmátt valds hér
eins og annarsstaðar?
Ég vildi ég væri ekki svona svartsýnn, en hreinlega sé ekki annað...
Kannski eina vonin sé að leggja af flokkakerfið og kjósa einstaklinga beint, á þing og í bæjarstjórnir. Það kostar byltingu í kosningalögum.
-Tryggvi
Sæll, Tryggvi. Já, það slær stundum út í fyrir manni með bjartsýnisrugli sem engin rök réttlæta.
Samt held ég að töluvert væri fengið með því að takmarka þann tíma sem menn geta gegnt embættum. Þannig fækkaði skemmdum eplum í tunnunni og jafnvel væri ekki óhugsandi að menn gætu verið í pólitík í sosum einn áratug ævi sinnar án þess að breytast í sníkjudýr.
Skrifa ummæli