miðvikudagur, 2. apríl 2008

Ferðin gengur vel: Geir og Sóla fengu kjúkling



Á fréttavef Vísir.is kemur fram að ferðalag forsætisráðherra, utanríkisráðherra og kó til Búkarest með ódýrri einkaþotu gengur mjög vel.

Þar segir:

"Þess má geta að flugferðin með einkaþotunni gekk vel í dag. Lagt var af stað snemma í morgun og flogið áleiðis til Stavanger í Noregi. Á leiðinni þangað var flugfarþegum boðið upp á ommelettu í morgunmat. Í Stavanger var stoppað í hálftíma á meðan vélin var fyllt af eldsneyti. Svo var haldið til Búkarest en á leiðinni þangað var Geir, Ingibjörgu og föruneyti þeirra boðið upp á kjúkling."

Þessi fábrotnu en hollu matvæli sýna að ríkisstjórnin vill ganga á undan í sparnaði á þessum síðustu og verstu tímum, því að Beluga-kavíar, Moet & Chandon-kampavín og Kobe-nautasteik hefur ekki verið innifalin í hinu lága verði.

Visir.is segir ennfremur: "Forsætisráðuneytið var búið að bóka áætlunarflug til Búkarest með viðkomu í London í eina nótt áður en ákvörðun var tekin um að fljúga frekar á Nato fundinn með einkaþotu.

Að sögn Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarkonu Geirs Haarde, var ákveðið að taka síðari kostinn þegar í ljós kom að kostnaðurinn væri aðeins 100 til 300 þúsund krónum meiri.

Að sögn Grétu fékk forsætisráðuneytið "mjög góðan díl" hjá fyrirtækinu sem leigði út einkaþotuna. Hún vill þó ekki gefa upp nákvæman kostnað."

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott að fara í einkaþotu, rosaflott. Vonandi voru þau keyrð út á völl í framsóknar-Hummer.

Þyrla er líka ómissandi undir búkana í höfuðborg Rúmeníu.

Lifi nómenklatúran! ef hún nær að festa sig í sessi á Íslandi. Niður með jafnaðarstefnuna!

Lifi Ingibjörg Gísladóttir og Geir Haarde!

Til fjandans með umhverfiskommatittina"

Rómverji

mariakr sagði...

Mér fannst fréttanefið áhugaverðast. Fékk hann greyið engan kjúkling?
Annars gerði ég tilraun til að gera athugasemd aftur í gær um söguna.(Lykilorð rangt , hrópaði gúgglið) Og ætlaði að biðja þig að hafa hana langa. Ég vakti bara eina nótt yfir þeirri síðustu. Svo er það þetta um formúluglæpasögurnar sem sumir hafa á hornum sér. Systir mín hefur þetta að segja um það: Eru ekki allar sögur skrifaðar eftir formúlu-ha?

Þráinn sagði...

Takk fyrir athugasemdir Rómverji og María.
Varðandi formúluglæpasögur þá hef ég verið að lesa bækur í 58 ár án þess að hafa fundið fundið formúluna, mín eina niðurstaða er sú að bækur skiptist í góðar og velskrifaðar bækur og vondar bækur og illa skrifaðar. Til dæmis eru eiginlega allar Íslendingasögurnar glæpasögur, en "formúlan" virðist ekki virka á þær heldur því að þær eru ákaflega misjafnar.