föstudagur, 25. apríl 2008

Örvæntingarfullt ákall á hjálp?

Vondir íslenskumenn senda dómsmálaráðherra torskilinn haturspóst

 
Það er leitt til þess að vita að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem hefur engan lífvörð skuli vera lagður í einelti af dónalegum bloggurum.
 
Dæmi um skeyti birtir hann á bloggsíðu sinni:

 

"Í því fyrsta segir meðal annars:

"Ég vona af ollu minu hjarta að þú fáir banvænan og sársaukafullann sjúkdóm og lifir sem lengst í þjáningum, kannski gerir þér grein fyrir hversu mikil mannfýla þú ert undir þeim kringumstæðum, valdasjúkur ofbeldisseggur og geðsjúklingur".

Undir skrifar Snorri.

 

Hilmar Bjarnason er ekki jafn harðorður en segir

"sjáðu sóma þinn i því að reka þessa lögreglumenn sem gáfu skipun um þessar aðgerðir. EINIG SKALT ÞÚ SEGJA AF ÞÉR EMBÆTTI NÚ ÞEGAR!!!"

 

Þriðja bréfið er frá Arnóri Jónssyni,sem segir

„Góðan dagin björn gerðu þjóðini greiða og skjótu þig svo við hin getum lifað lifinu þu ert ein stæðst hálfiti Islands".

 

Á þessari stundu er ekki ljós hverjir skrifuðu þessi bréf en öll eiga þau sameiginlegt að stafsetningarkunnátta bréfritara er fyrir neðan allar hellur, þannig að hugsanlega telja bréfritarar að þeir telji sig eiga harma að hefna á Bíbí sem var lengi menntamálaráðherra og bar ábyrgð á stafsetningarkennslu, áður en hann sneri sér að öryggismálum.

 

Það getur verið erfitt að ráða í meiningu bréfritara vegna fákunnáttu þeirra í stafsetningu. Tökum til dæmis síðustu fullyrðingu Arnórs Jónssonar "þu ert ein stæðst halfiti Islands" og gæti hugsanlega þýtt "þú ert einn stærsti hálfviti Íslands."

 

Blogg af þessu tagi eru yfirleitt nefnd "sjálfsmorðsblogg" því að í þeim kemur yfirleitt fram IP tala sendandans, svo að margir sálfræðingar líta á blogg af þessu tagi sem örvæntingarfulla beiðni um hjálp.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sumar útvarpsstöðvar hafa stundum hagað sér eins og skepnur og haldið andlega veiku fólki í beinni útsendingu. Ef til vill má finna dæmi þess í íslensku sjónvarpi einnig. Þetta flokkast þá undir "freak show", eða sýningu á vanheilu fólki. Á að heita skemmtun, en er í raun grimmileg lágkúra. Mannvonska.

Björn Bjarnason hefði ekki átt að birta þessi bréf. En með þeim vill hann auðvitað sýna fram á að svona séu einmitt andstæðingar hans.

Dómsmálaráðherra hefur áreiðanlega fengið betri bréf frá gagnrýnendum sínum en þessi. Hann ætti að birta úrval þeirra, en sleppa lágkúrunni.

Rómverji

Þráinn sagði...

Illir andstæðingar sem óska honum dauða eru dásamlegar röksemdir í augum dómsmálaráðherra fyrir öryggislögreglu, greiningardeildum, sérsveitum, varalögreglu og þess konar rugli.
Venjulegt fólk lítur á þetta sem röksemdir fyrir því að efla heilbrigðiskerfið.

Nafnlaus sagði...

Hvernig ætli fréttastofa Rúv og Geir H. fái það út að þetta séu hótunarbréf? Þetta eru bara einhverjir kjánar að senda kjánabréf og furðulegt hjá Bíbí að birta þau. En nú er kallinn sennilega búinn að finna sér ástæðu til að kaupa notaða óeirðabíla sem ekki eru lengur í notkun á Norður Írlandi.

Þráinn sagði...

Birting bréfanna orkar tvímælis eða fjölmælis. Ef Bíbí heldur að setið sé um líf sitt ætti hann að skerpa á greiningardeildinni og setja sérsveitina í viðbragðsstöðu.