þriðjudagur, 8. apríl 2008

Ímyndarsmiðja Ingibjargar

Í kvöldfréttum RUV ohf. kom fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra boðaði virka utanríkisstefnu þegar hún flutti Alþingi skýrslu um utanríkismál í dag...
 
"Ingibjörg Sólrún lagði áherslu á mikilvægi virkar utanríkisstefnu því ímynd Íslands væri veik og of fáir vissu hve traustir innviðir samfélagsins eru. Hin virka utanríkisstefna felur í sér ýmiss konar áherslubreytingar, bætti hún við."
 
"Virk utanríkisstefna" er vitanlega bara slagorð og slagorðaglamur í stað utanríkisstefnu er fremur dapurlegur vitnisburður um hvert hið pólitíska ætlunarverk Ingibjargar Sólrúnar reynist vera - nú þegar hún hefur fengið tækifæri til að stjórna bæði Samfylkingunni og utanríkisráðuneytinu.
 
Það vill þjóðinni þó til happs að "ímynd" íslensku þjóðarinnar er hennar eigin framganga. Hins vegar væri gaman að því ef einhver benti utanríkisráðuneytinu á að það er ekki auglýsingastofa og ímyndarsmiðja heldur kostnaðarsöm stofnun - sem þyrfti senn hvað líður að fara að huga að sinni eigin ímynd í augum þjóðarinnar.
 
Ímyndarsmiðja Ingibjargar sendir Svavar Gestsson til Eþíópíu og Össur til Jemen til að snapa atkvæði í öryggisráðið. Ímyndunarveiki verður seint flokkuð sem "virk utanríkisstefna". Við gætum rækt betur skyldur okkar hérna á plánetunni.

Engin ummæli: