Ætla ekki að kaupa einkaþotu
"Forsætisráðherra segir engin áform vera uppi hjá stjórnvöldum að kaupa einkaþotu. Rekstur slíkra véla sé betur komið hjá einkaaðilum."
Þetta hefur Stöð 2 eftir forsætisráðherra og þetta er gaman að sjá. Maður hafði áhyggjur af því að Geir kæmist á bragðið með lúxus og bruðl og einkaþotur eftir Búkarest-ferðina sem var farin til að ræða um heppilega staðsetningu fyrir bandarískar eldflaugar í Evrópu og landamæri Makedóníu, stríðið í Afganistan og fleiri hluti sem bráðnauðsynlegt var að Geir og Ingibjörg tjáðu sig um á Natófundi.
Sem betur fer hefur munaðarlífið þó ekki haft nein áhrif á forsætisráðherrann sem heldur áfram að setja þjóðinni gott fordæmi í hagsýni og sparnaði.
Í fyrsta lagi flýgur hann með einkaþotu af því að það sparar tíma og kostar ekki nema nokkur hundruð þúsund eða milljón meira en venjulegur Saga Class-farmiði.
Í öðru lagi hefur hann engin plön um að láta ríkið kaupa einkaþotu þótt það kosti skít á priki að fljúga með þeim af því að rekstri slíkra véla er vitanlega miklu betur fyrir komið í höndum einkaaðila.
Þetta er fagurt fordæmi. Akkúrat það sem þjóðina vantaði núna í upphafi kreppunnar. Sterkur og ákveðinn leiðtogi sem gengur á undan með góðu fordæmi í sparnaði og útsjónarsemi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli