miðvikudagur, 2. apríl 2008

Þráinn: Bíbí ruglar saman sýknudómi og sakleysi og sektardómi og réttlæti en þekkir samt sundur sokka og hanska
Dómsmálaráðherrann skrifar á bloggið sitt:

"Glæpasagnahöfundurinn Þráinn Bertelsson ræðir um O. J. Simpson málið í tilefni af dagbókarfærslu minni hér í gær. Þráinn er ekki betur að sér en svo, að hann ruglar saman hanska og sokki, þegar hann ræðir um sönnunargagnið, sem leiddi til sýknu Simpsons. Alan M. Dershowitz, verjanda hans tókst að sýna kviðdóminum, að lögreglan hafði falsað „sönnunargagn“ með því að láta blóð leka í sokk. Á því féll málatilbúnaður ákæruvaldsins."

Ég svara:
Ég kom ekki nærri því að sýkna O. J. Simpson, enda er ég hvorki lögfræðingur né áhugamaður um trix til að fá morðingja sýknaða fyrir dómstólum. Það var kunningi þinn, Alan M. Dershowitz verjandi Simpsons sem tók "sokka og hanskasnúninginn" á dómaranum og vesalingur minn kom þar hvergi nærri.

Að bendla mig við að misskilja þessa lögfræðilegu fínessu sem þér finnst svo athyglisverð er fremur dapurlegur útúrsnúningur af þinni hálfu - samkvæmt þeirri lógík sem er að verða kækur þinn; að gera andstæðingum þínum upp skoðanir og útmála síðan hvað þær séu vitlausar.

Sumum þykja svona vinnubrögð aðdáunarverð. Mér ekki. Samt vil ég frekar sjá sekan mann ganga lausan en saklausan mann dómfelldan.

Hér á Íslandi var framið hryllilegt dómsmorð sem kallað er Geirfinns-málið, eða mál 214 (minnir mig), þar sem sakborningar voru meðhöndlaðir eins og gerðist á tímum Rannsóknarréttarins. Engin lík hafa fundist. Engin morðástæða hefur fundist. Ekkert hefur fundist sem tengir sakborninga í Geirfinnsmálinu við morð - nema játningar sem fengnar voru með einangrun og pyntingum og voru að sjálfsögðu dregnar til baka. Samt var þetta fólk dæmt.

Ágæti dómsmálaráðherra, vera kann að við séum ósammála um marga hluti, en ég vona að þú sért mér sammála um að Geirfinnsmálið sé ljótur blettur á íslenska dómskerfinu, og það þurfi að taka upp málið aftur og komast að nútímalegri niðurstöðu.

Þetta verður örugglega einhvern tímann gert, og ég vona og trúi reyndar að þú búir yfir réttlætiskennd og mannúð sem nægir til að sjá til þess að þetta verði gert meðan ennþá þetta forsmáða og ærulausa fólk er enn ofar moldu. Breiðavíkurmálið er ljótt mál og nokkur hugsvölun að yfirvöld virðast vilja viðurkenna mistök og bæta fyrir þau. Geirfinns-málið er hræðilega ljótt.

Það skiptir meira máli en einhverjar lögfræðilegar hártoganir og Heimdallarútúrsnúningar um sokkaplögg og hanska ógæfumannsins O. J. Simpson. Ég trúi að þú sért - þrátt fyrir margvíslegan skoðanaágreining - innst inni drengur góður. Og tími til kominn að leyfa þeim fallegu eiginleikum þínum að njóta sín líka meðan þú gegnir þessu embætti.

Engin ummæli: