fimmtudagur, 10. apríl 2008

Kínverjar, Þorgerður Katrín og saddamskt stjórnarfar

Saddam stundaði mannréttindabrot og fjandskapaðist við lýðræði. Hann var yfirgangssamur við nágranna sína.
Hann var líka grunaður um að eiga í fórum sínum gereyðingarvopn.
 
Íslenska ríkisstjórnin skrifaði upp á að Bandaríkjamenn og Bretar gerðu innrás í landið og hengdu Saddam á hæsta gálga.
 
Það var sönnun þess að innrásaraðilar væru ennþá ofbeldishneigðari en Saddam.
 
Kínverjar stunda mannréttindabrot og fjandskapast við lýðræði. Kínverjar eru yfirgangssamir við nágranna sína.
Þeir eru kjarnorkuveldi og ráða fyrir stærsta herafla heims.
 
Íslenska ríkisstjórnin smjaðrar fyrir Kínverjum og vill fá atkvæði þeirra til að komast í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Til marks um að svona voldug þjóð þurfi ekki að virða mannréttindi né frelsi ætlar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennamálaráðherra Íslands að heimsækja þá í sumar - undir því yfirskini að íslensku íþróttafólki á Ólympíuleikum sé stuðningur að augnaráði íslensks stjórnmálamanns.
 
Slík heimsókn væri sönnun þess að gesturinn sé reiðubúinn til að gefa kínverskum ráðamönnum undanþágu frá grundvallargildum mannkynsins.
 
Samband ungra sjálfstæðismanna er meðal þeirra sem hafa hvatt íslenska stjórnmálamenn til að sniðganga opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna.
 
Það geri ég líka. Að sjálfsögðu.

Engin ummæli: