föstudagur, 4. apríl 2008

Skipulag Reykjavíkur - til allra er málið varðar

Opið bréf til borgarstjórnar Reykjavíkur
og allra sem í borginni búa
og hafa áhuga á umhverfi sínu.

Ég er búinn að búa í miðborg Reykjavíkur frá því ég kom heim frá námi árið 1977.
Á þeim tíma höfum við Sólveig eiginkona mín sýnt í verki áhuga á að viðhalda gömlum byggingum og breyta niðurníddum hjöllum í fallega mannabústaði.
Þrjú hús höfum við endurnýjað:
1, Klapparstíg 42, sem aðrir aðilar keyptu svo af okkur og héldu áfram að endurbæta.
2. Bergstaðastræti 61 sem sama gildir um,
3. og loks Norska bakaríið, Fischerssund 3, sem var byggt árið 1874 og á sér skrautlega sögu sem mannabústaður og geymsluhjallur.
Síðasttalda húsið sem er núna heimili okkar keyptum við af borginni með því fororði að Grjótaþorpið fengi að vera í friði fyrir öðru en eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi á þeim húsum sem þar eru.

Byggingarmanía
Þetta var árið 1992. Síðan eru íbúar í Grjótaþorpi búnir að standa í samfelldri varnarbaráttu fyrir stórslegnum byggingarplönum og byggingarframkvæmdum.
Á horni Aðalstrætis og Túngötu stendur núna glæsihótel - sem er fallega byggt og af smekkvísi, en vegna stærðar sinnar þrengir þó óneitanlega að byggð við Grjótagötu og syðri hluta Grjótaþorps.
Við í norðurhluta þorpsins höfum heldur ekki farið varhluta af byggingaframkvæmdum. Verst var eyðilegging á Hlaðvarpanum og húsum Tryggva Ófeigssonar við Aðalstræti og Fischerssund.
Þar voru lagðar samþykktar teikningar fyrir íbúa. Ýmsu var mótmælt og fátt eitt (ef eitthvað?) tekið til greina. Fagurfræði kom lítið við sögu, eins og sjá má þegar hótelið er skoðað frá Aðalstræti og líka þegar hugað er að "nútímalegum" og "stöðluðum aðferðum" við byggingu þess.
Verst var að hótelbyggingendur notuðu samþykktar teikingar sínar meira til gamans en sem löglega byggingaruppdrætti. Til að mynda var hótelið sem kom í stað hlaðvarpans hækkað um rúman metra frá samþykkri byggingu.

Hinn ósýnilegi byggingarfulltrúi
Þetta kærðum við íbúar til byggingafulltrúans í Reykjavík með mörgum bréfum og tölvupóstum sem hann hefur ekki látið svo lítið að svara enn þann dag í dag. Einhverjir yfirmenn hans hjá borginni ráku hann þó á staðinn með tommustokk og hvernig sem hann mældi gat hann ekki sett í skýrslu sína annað en byggingin væri um hálfum metra hærri en lög mæltu fyrir um. (Hin raunverulega tala er 130 sentimetrar, en það geri ég ekki að hitamáli).
Þessa staðreynd kærðum við íbúar til "úrskurðarnefndar byggingar- og skipulagsmála" sem tók rúmt ár í að íhuga úrskurð sinn - sem við fengum í hendur í vor.

Hin gagnslausa en tímafreka úrskurðarnefnd
Þar segir nefndin að hún geti ekki kveðið upp úrskurð í málinu um staðfesta og mælanlega hækkun hússins umfram teikningar og leyfi. Ástæðan fyrir úrræða- og úrskurðarleysinu sé sú að "málinu sé ekki lokið" og úrskurðarnefndin sé aðeins úrskurðaraðili í málum sem sé lokið.
Skálkaskjólið sem úrskurðarnefndin fann til að skjóta sér undan að kveða upp augljósan úrskurð um að bygging hefði verið hækkuð um hálfan metra og þar með ansi marga rúmmetra var sú að borgarráð hefði á fundi þar sem byggingafulltrúi viðurkenndi vanrækslu sína og þá staðreynd að húsið væri of hátt falið byggingafulltrúa að skila inn skýrslu um málið, og væntanlega útskýra glöp sín og leggja til úrræði.
Þessari skýrslu hefur byggingafulltrúi vitanlega ekki skilað enn þann dag í dag, og þarf því ekki að óttast þann úrskurð frá "úrskurðarnefnd byggingar- og skipulagsmála" að hann sé ekki starfi sínu vaxinn.

Sífellt þref við yfirvöld
Fyrir utan þessa endaleysu höfum við í Grjótaþorpinu orðið að standa í þrefi við borgaryfirvöld vegna þess að hagsmunir húsbyggjenda hérna í grenndinni voru að rífa gamalt hús sem Benedikt Gröndal átti.
Minjavernd eða Gamlhús eða hvað það fyrirtæki nú heitir vildi óð og uppvæg heiðra skáldið með því að byggja eftirlíkingu af húsi þess í Grjótaþorpinu (þar sem hús þess aldrei stóð). Fjárhagslegir hagsmunir við að endurbyggja eftirlíkingar af gömlum húsum eru miklir, því að þetta er nákvæmnisverk sem þarf að nostra við.
Búið er að stinga upp á þremur stöðum í Grjótaþorpi sem lóð undir eftirlíkingu af Gröndalshúsi sem gæti þá verið ókeypis gististaður fyrir erlenda rithöfunda sem kæmu til Reykjavíkur á vegum Rithöfundasambandsins.
Fyrsta hugmyndin var að setja húsið niður á lítinn grasbala á horni Mjóstrætis og Fischerssund í innan við 10 metra fjarlægð frá húsinu okkar Sólveigar, þannig að hinir erlendu kollegar hefðu þá gott útsýni inn um glugga okkar og gætu séð lifandi rithöfund að störfum. Það er í sjálfu sér falleg hugmynd að flæma burt úr Grjótaþorpinu lifandi rithöfund til að heiðra Benedikt Gröndal dauðan. En fleira kom til greina. Ónotuð lóð við Mjóstræti við hliðina á Vinaminni. Einnig kom til tals að nýta smáleiksvæði sem börn hafa við Bröttugötu. Öllum þessum hugmyndum var harðlega mótmælt með tilheyrandi bréfaskrifum og fyrirhöfn. Mínum athugasemdum er yfirleitt hafnað af sérstakri fyrirlitningu af fólki sem virðist vera búið að bíta það í sig "að ég haldi að ég sé eitthvað" og þess vegna sé það forgangsmál að sýna mér í tvo heimana.

Eini staðurinn fyrir Gröndalseftirlíkinguna
Eini staðurinn sem raunverulega kemur til greina ef þröngva á Gröndalseftirlíkingunni í Grjótaþorpið er á horni Túngötu og Garðastrætis.
Á þeirri lóð liggja nú tveir steinhnullungar sem okkur voru sendir frá einhverju Eystrasaltslandi í þakkarskyni fyrir stuðning í sjálfstæðisbaráttu.
Þessir steinar myndu sóma sér betur einhvers staðar í hinum fallega grjótgarði sem hlaðinn hefur verið sjávarsíðuna í Reykjavík og er skreyttur með grjóti sem Sig. Guðmundsson myndlistarmaður í Kína hefur látið slípa fyrir sig.
Einnig væri auðvitað hægt að flytja Gröndalshús í húsakirkjugarðinn í Árbæ.

Hálfgeðveikir kverúlantar
Nema hvað, reynsla og niðurstaða af því að búa í kvosinni og reyna þar að flikka upp á umhverfi sem var orðið borginni til vansa þegar við komum þangað er í stuttu máli sá: Að hjá borgaryfirvöldum er litið á mann sem hálfgeðveikan kverúlant.
Að úr því að manni hefur tekist að bjarga þremur fallegum húsum frá eyðileggingu segir hvaða flón sem er hjá Reykjavíkurborg: Þetta get ég líka og hef meira að segja meira vit á þessu.
Borgarskipulaginu er ekki hægt að treysta. Tillögur um breytingar á skipulagi eru illa kynntar - og athugasemdir íbúa eru vægast sagt illa séðar.

Engum að treysta
Þegar kemur að byggingaframkvæmdum er ekkert eftirlit af hálfu byggingafulltrúa að farið sé eftir teikningum. Allar reglur um vinnutíma, ónæði, umferð og hávaða eru þverbrotnar.
Að fenginni reynslu myndi ég því ráðleggja öllum nema harðsnúnum þverhausum að búa sem lengst frá miðborginni.
Það sem verst er að þola af hálfu borgaryfirvalda eru hið fullkomna skipulagsleysi. Engin framtíðarsýn. Engin skylda til að varðveita og láta í friði. Aðeins hrokafullar ákvarðanir um að eitthvað geti verið "fjandi" sniðugt, svo sem að fara á rand með eftirlíkingu af húsi Benedikts Gröndals sem "nauðsynlegt" var að rífa svo að háhýsa- og hágróðamenn fengju svigrúm til að reisa risaskrímsli í hjarta borgarinnar.

Óbreytt ástand
Allir vita hvernig borgarstjórnarmálum í Reykjavík er nú komið - en í raun og veru hefur ástandið ekkert breyst. Það er eitt ákveðið í dag og annað á morgun. Allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Þannig var það hjá R-listanum, sællar minningar og þannig hefur það verið síðan. Sem betur far man ég ekki eftir Stalínísku einræði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík áratugum saman.
Nú á að fara að byggja flugstöð við flugvöll sem samþykkt var að fjarlægja innan tíðar í lýðræðislegri kosningu allra borgara í Reykjavík.

Að fá einhvern fullorðinn til að stjórna
Það er kominn tími til þess fyrir þá sem "stjórna" borginni að draga djúpt andann, og fara að vanda sig.
Annars neyðist ég eða einhver venjulegur maður en ekki framagosi til að bjóða fram gegn þessu liði sem kemur úr biluðum útungunarvélum stjórnmálaflokkanna og taka við stjórn á stassjóninni - án valdhroka, án vanrækslu, án ábyrgðarleysis og í þágu þeirra sem búa í borginni okkar - og með framtíðarhagsmuni að leiðarljósi, ekki pólitíska hvirfilbylji dagsins.

Samskiptaþreyta
Að lokum þetta. Ástæðan fyrir þessum skrifum er almenn þreyta á samskiptum við Reykjavíkurborg um áratugaskeið. Varðandi Gröndalshús þá bauð ég borginni að leysa til sín húsið mitt og byggja Gröndalshús þar á lóðinni eða í næsta nágrenni og ég skyldi láta mig hverfa orðalaust - ef það væri einlægur vilji í borgarstjórn að heiðra dáið skáld sem bjó við Vesturgötu með því að hrekja í burt lifandi skáld sem býr í Grjótaþorpi.

Eitt í dag - annað á morgun
Að lokum þetta: Það er mikil vinna og fjárútlát, skuldbinding, sem fylgir því fyrir venjulegt fólk að koma sér upp húsi.
Slíkt fólk á að lifa í samvinnu við borgaryfirvöld verndað af ákveðnu og traustu skipulagi en ekki í stöðugum ótta við að borgarfulltrúum detti einhver vitleysa hug, ein í dag, önnur á morgun.

Úrskurðar- og skipulagsnefnd fái mál til úrskurðar
Svo mætti borgarstjórinn í Reykjavík gjarna sparka í rassinn á sínum ónýta byggingarfulltrúa og reka á eftir honum að skila mælingaskýrslunni um Hlaðvarpahúsið - svo að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála getið fengið skýrslu um að málinu sé lokið og úrskurðað að húsið er ekki byggt samkvæmt teikningu og byggingarfulltrúinn í Reykjavík er ekki starfi sínu vaxinn frekar en svo margir aðrir sem eru að "stjórna" borginni okkar og ráðskast með okkur.

Reykjavík er annað og meira en stjórnmálaflokkar
Mér er nákvæmlega sama hvaða stjórnmálaflokkar stýra borginni, en mér er fyrirmunað að skilja af hverju þarf að láta eins og höfuðborg landsins sé sérstakt borgríki sem stjórna þarf með stjórn og stjórnarandstöðu - í stað þess að stjórna með tilliti til einstakra mála, þannig að borgarfulltrúar séu fulltrúar borgarbúa en ekki þrælar stjórnmálaflokka.

Skrifað 4. apríl, 2008
Þráinn Bertelsson
Fischerssundi 3
101 Reykjavík

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

eiiiimenn og allelúja!

Svo er líka góð hugmynd að stofna nýjan "Reykjavíkurlista", lista sem hefði á að skipa fólki með dálitla lífsreynslu umfram þá að sleikja frímerki fyrir FLOKKINN og afturendann á forystunni. Almenn siðferðisviðmið kæmu sér líka vel.

Rétt er að byrja strax að setja saman listann (ágætis dægrastytting) - en varastu framapotara.

Rómverji

Þráinn sagði...

Það er ekki hlaupið að því að forðast framapotara, og gallinn er sá að ef menn eru ekki galnir áður en þeir eru settir í embætti ganga þeir yfirleitt mjög fljótlega af göflunum eftir það.

Nafnlaus sagði...

"[...] ef menn eru ekki galnir áður en þeir eru settir í embætti ganga þeir yfirleitt mjög fljótlega af göflunum eftir það."

Já, en tíminn þess á milli er dýrmætur og hann þarf að nýta vel.

Enginn ætti að gera stjórnmál að ævistarfi. Ekki af tillitssemi við sjálfan sig heldur samfélagið.

Rómverji

Þráinn sagði...

Já, Rómverji. Þessu er ég sammála.
Mér finnst að enginn eigi að fá að sitja á Alþingi lengur en þrjú kjörtímabil og enginn eigi að fá að gegna ráðherraembætti lengur en sex ár.
Sama máli gegnir um mörg önnur embætti.
Flestir eru orðnir uppiskroppa með hugmyndir eftir tiltölulega skamman tíma - og þá tekur valdhrokinn við. Um spillinguna held ég að það gildi að annaðhvort séu menn spilltir frá upphafi eða ekki - en freistingin fari vaxandi.

Nafnlaus sagði...

Já, vex með tíma og hitastigi, eins og bakteríusýking.

Eftirlaunalögin frá í desember 2003 eru dæmi um spillingu á lokastigi.

Sorglegt að horfa upp á ungt fólk ganga þannig fyrir þann ætternisstapa. Reyndar raunalegt að sjá á bak miðaldra "jafnaðarmönnum" líka.

Áður entust stjórnmálmenn lengur, líkt og ísskápar og þvottavélar. Það er eitthvað í tiðarandanum sem við þurfum að berjast gegn.

Látum slag standa.

Nafnlaus sagði...

Svona er maður mikil pempía stundum:

Vildi heldur hafa þetta svona:

"Sorglegt að horfa upp á ungt fólk ganga fyrir þann ætternisstapa."

Rómverji

Nafnlaus sagði...

sæll
Hélt þú værir svo gamall í árum að þú vissir að þeir hjá DINNI ehf ( Hreppsnefn-dinni ) væru siðblindir og að þegar þeir lofa einhverju þá stendur ekki til að standa við það.Borgarstjórarnir búa t.d. fæstir í Reykjavíkurhreppi.Reyndar vissi ég ekki að í Reykjavík væri embætti byggingarfulltrúa eða byggingarfulltrúi.Hélt að það væri bara stimpilforskrift sem keypt væri í bókabúðum og betri stimplagerðum.Voru ekki líka leiðbeiningar utan á kornflekspökkum um hvernig útbúa ætti stimpil ''Bygginga'' fulltrúans í Reykjavík .Var ekki best og ódýrast að skera han út í kartöflu eða Car töblu ??. Er einhver sem safnar kornflekspökkum þarna úti ?? sem gæti bjargað mér með pakka með slíkum leiðbeiningum ??
Kv.
Einar

mariakr sagði...

Það væri gaman að vita hverjir hafa haft forystu í skipulagsnefnd síðastliðin tuttugu ár. Í stað hausanna sem gerðir eru af fráfarandi borgarstjórum og hengdir eru upp í ráðhúsinu, ætti að vera skylda að gera styttur af þessum mönnum og konum í fullri stærð og raða þeim um byggingareiti borginnar með skilti sem á stæði: Ég bar ábyrgð á þessu. Ég vildi til dæmis gjarnan vita hver það er sem leyfði og leyfir að sandi sé dælt yfir börn og gamalmenni hvern einasta dag vikunnar frá 8.00 til 22.00 hér í bryggjuhverfinu við Grafarvoginn og kallast tiltækið "Björgun." Í leiðinni er þetta fyrirtæki víst líka að eyðileggja lífríki sjávar í Faxaflóa.- Það er víðar pottur brotinn en í fallega Mjóstrætinu.

Þráinn sagði...

Þetta með að setja upp koparhausa af skiplags- (les: árásar-) hernum er prýðileg hugmynd. Stundum þegar ég missi mig í skáldlega óra dettur mér í hug að tryggara og varanlegra væri að hafa gamla lagið á hausasýningunni: Setja hausana á spjótsodd eða girðingarstólpa.
En svo fer spennan og æsingurinn úr líkamanum og eftir verður bara þreytan á yfirgengilegri heimsku og valdhroka, jafnvel í þessu litla krummaskuði við ysta haf.

Nafnlaus sagði...

Hver er skýringin á þessum nýlegu vinsældum þess "að ganga fyrir ætternisstapa"? Oftar og oftar sér maður "giska" og er þá ekki átt við ágiskun, en í fyrra þótti mörgum fínt að tala um "mýtu"; eða er það "mítu"?

Oft má sjá á skrifum iðnaðarráðherrans hrifnæma hvurslax orðbragð stjórn"mála"menn telja að geri sig greindarlegri. Oftast hljóma þeir þó einsog íþróttafréttamenn, sem eru jú bara fréttamenn með skertan orðaforða.