laugardagur, 19. apríl 2008

Hafnarverkamenn ósammála Þorgerði Katrínu



Vinir Kínverja: Þorgerður Katrín og Múgabe

Það er leiðinlegt að hafnarverkamenn í Durban skuli ekki hafa jafn mikla trú á Kínverjum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra Íslands sem getur varla beðið eftir því að komast á Ólympíuleikana í Peking til að heiðra og gleðja kínverska ráðamenn með nærveru sinni.

Kínverska vopnaskipinu sem Kínverjar sendu Múgabe vini sínum í Simbabve var neitað um uppskipun af hafnarverkamönnum í Durban í Suður-Afríku. Hafnarverkamenn hafa sennilega ekki pólitískt vit á við íslenskan menntamálaráðherra, en eyrarkallarnir voru sannfærðir um að kínversku vopnin ætti að nota til að halda hræinu Múgabe og ógnarstjórn hans við völd, hvað sem líður úrslitum kosninga í landinu. Þess vegna neituðu þeir að afgreiða dallinn og sögðu Kínverjunum að sigla sinn sjó.

Núna mun vopnaskipið vera statt fyrir utan Beira í Mocambique í von um afgreiðslu svo að hríðskotarifflar og eldflaugasprengjur komist í tæka tíð til Harare í Simbabve, þannig að ekki þurfi að murka lífið úr andstæðingum Múgabes með sveðjum eða berum höndunum.

Það sækjast sér um líkir og Kínverjar eru í miklum kærleikum við Múgabe sem hefur fengið aura hjá þeim eftir þörfum fyrir aðgang að auðlindum landsins.

Ef einhverjir keppendur frá Simbabve mæta á Ólympíuleikana verða þeir ábyggilega glaðir að sjá íslenska menntamálaráðherrann þarna í Kína hjá velgjörðamönnum þeirra og Múgabes.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

-Teiknimyndaprófíllinn nýji gefur raunsannari mynd af þér núna, Þráinn.

-Það er eins og vaðallinn (blogg) verði kraftmeiri og betri.

Þráinn sagði...

Já, það var um tvennt að ræða fyrir forstöðumenn Eyjunnar:
Annaðhvort að kosta mig til lýtalæknis svo að ég færi að líkjast myndinni.
Eða lagfæra myndina - sem reyndist ódýrari kosturinn.
"Vaðall" finnst mér ekki gott orð fyrir "blogg". Tökum sem dæmi elsta og virðulegasta borgarann í bloggheimum, BB dómsmálaráðherra. Ekki gæti maður sagt: "Vaðallinn í BB" í staðinn fyrir "BB bloggar"!

Nafnlaus sagði...

-Mörgum finnst þó vaðallinn í BB hneykslanlegur.

-Er ómögulegt að finna annað orð fyrir "blogg"?

Þráinn sagði...

Blek? Að bleka?

Nafnlaus sagði...

Mér finnst vaðall passa mjög fyrir það sem kemur frá BB
Blogg eru dagbækur pupulsins
Blekið hans Þráins hljómar vel