miðvikudagur, 30. apríl 2008

Forsætisráðherra hengir bakara fyrir smið

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það hafi verið mistök hjá fyrri ríkisstjórn að heimila Íbúðalánasjóði að veita allt að 90 prósenta lán til íbúðarkaupa. Íslendingar væru að súpa seyðið af þeim mistökum um þessar mundir.


Með fyllstu virðingu fyrir Geir Haarde þá fer um mann hrollur við að heyra að maður sem var fjármálaráðherra árum saman og er núna forsætisráðherra heldur að Íbúðalánasjóður sé valdur að erfiðu efnahagsástandi hjá fjölda fólks í dag.

Það er alrangt. Það er það óseðjanlegri græðgi bankanna að kenna að húsnæðislán fóru úr böndunum og 100% lánatilboðum í öllum heimsins gjaldmiðlum.

Það er Íbúðalánasjóði að þakka að fleiri Íslendingar en raun ber vitni skuli ekki þurfa að súpa seyðið af mistökum bankanna.

Það sem Geir Haarde ætti að gera núna væri að stofna Ríkisbanka sem keypti "húsnæðislánin" af gráðugu bönkunum. Það væri svo hægt að einkavæða bankann þegar hann væri búinn að þjóna tilgangi sínum - jafnvel væri hægt að einkavæða hann með heiðarlegum hætti.

21 comments:

Nafnlaus sagði...

þráinn í seðlabankann!

Nafnlaus sagði...

Sæll Þráinn!

Já, þú ert á svipuðu róli og Grétar Þorsteinsson ASÍ foringi sem segir að þjóðfélagið verði að koma afglöpum sem kunna og kunnu ekki fótum sínum forráð til bjargar. Nei, takk segi ég. Ég lét ekki eftir mér á sínum tíma að kaupa mér raðhús þó ég hefði getað fengið lán fyrir því, ég lét ekki eftir mér að fá mér lúxusjeppa þó ég hefði getað fengið lán fyrir því. Af hverju ætti ég, sem vildi hafa vaðið fyrir neðan mig, vera að leggja af því litla sem ég þó á (sem er reyndar ekki rassgat því þessu sem kynslóðirnar í kringum mig eru ekki búnar að stela - það er tekið í skatta) til þeirra fífla sem ruku til á sínum tíma og skuldsettu sig í topp? Og treystu mér, allt um kring voru einhverjir krakkabjánar að kaupa sér íbúðir eins og ekkert væri. Það er komið nóg! Kappnóg því það er alltaf eins og endalaust megi leggja allan andskotann á herðar þessarar kynslóð sem ég tilheyri: 40 til 50 ára. Af vampírukynslóðinni, hippahelvítisfrekjunum og svo bjánunum sem eru að taka við.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Ég held ég verði að benda Geir á að lesa bréfið mitt til Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í gær!

Geir ætti að svar þeim spurningum sem þar eru settar fram áður en hann fera að bulla svona vitleysu í fjölmiðlum.

Sjá: Kæri Davíð Oddsson seðlabankastjóri!

http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/523508/

Þráinn sagði...

Já, Jakob, ég vil reyna að bjarga þeim sem voru narraðir út í að kaupa húsnæði sem þeir réðu ekki við.
Annaðhvort með því að efla Íbúðalánasjóð til mikilla muna eða með því að stofna nýjan ríkisbanka.
Bílalán og neyslulán og áhættulán geta menn hins vegar ábyrgst sjálfir - og umfram allt þá á ríkið ekki að lyfta fingri til að bjarga bönkunum sem sjálfir spiluðu rassinn úr buxunum, þrátt fyrir að forsætisráðherra af einhverjum ástæðum haldi að Íbúðalánasjóður en ekki þeir sem stefndu sér í stjarnfræðilegar skuldir erlendis beri ábygð á sukkorgíunni sem hér er nú að ljúka.
Til að hafa þetta einfalt: Ég vil hjálpa fólkinu sem á enga sök á vitleysunni. Þeir sem settu vitleysuna af stað geta bjargað sér sjálfir.

Þráinn sagði...

Og til Halls. Hvað maður sér fer ábyggilega eftir því hvar maður situr. Þegar ég fer í bíó vil ég sitja fyrir miðju og sjá myndina óbjagaða. Sumir vilja sitja fremst og lengst til hægri eða vinstri og finnst þeir fái meira út úr því að sjá myndina rammskakka. Þetta er náttúrlega smekksatriði:)

Nafnlaus sagði...

Var að blogg undir fyrirsögninni ,,Hver gól Geir?"

Það kvað hafa legið í landi hér á Fróni, að Gý gólu hina geðþekkustu bændasyni.

Nú virðist svoleiðis hafa gerst hjá Geir okkar Harða, forsætisráðherra, hvers manns hugljúfi fram að þessu.

Nú hefur svo orðið, líkt og með bændasyni forðum, þa´þeir leituðu fjár á fjöllum, hvar gyg voru á fleti fyrir, að hann hefur ,,Steingleymt" allri talnaspeki og þekkingu á hlutföllum.

Íbúðalánasjóður hefur lánað alls um 460 milljarða en bankarnir um 1.100 milljarða, að vísu á miklu styttra tímaskeiði er þeir sturtuðu yfir ,,Markaðinn" milljarðatugum og hundruðum, allt að láni fráútlandinu.

Ef Íbúðalánasjóðurinn er sökudólgurinn, les Geir eitthvað afturábak.

Legg til, að Geir fari að háttu alvöru Íhaldsmanna og breyti sjóðnum í banka og hefji viðskiptabankastarfsemi á grunni hans.

Leyfi svo hinum bönkunum bara að rúlla.

Þá verður að svíða sem undir míga.

Með kærri Miðbæjaríhaldskveðju

Bjarni Kjartansson
Eðalíhald sem heldur í það sem hald er í en lætur annað laust

Þráinn sagði...

Blessaður Bjarni.
Þegar íhaldssemin er orðin alvg staurblind halda menn áfram að vegsama Barrabas og krossfesta Krist.

Nafnlaus sagði...

Ég held að Geir hafi átt að hafa færri orð um að Guðni skyldi ekki efnahagsvandann. Hámarkslán Íbúðarlanasjóðs á þessum árum var í kringum 15 milljónir sem voru fyrst og fremst fyrir ungt fólk til að kaupa sér íbúð í blokk eða kjallara. Það voru bankarnir sem lánuðu tugi milljóna og langt umfram brunabótamat. Nei 90% lánshlutfall Íbúðalánasjóðs kom fyrst og fremst ungu fólki til hjálpar við að kaupa sína fyrstu íbúð og þurftu þess vegna ekki að veðsetja pabba og mömmu og jafnvel líka afa og ömmu. Vandræðagangur núverandi ríkisstjórnar er ekki þeirri fyrrverandi að kenna.

Kveðja Pétur

Þráinn sagði...

Ég er sammála þér um Íbúðalánasjóð, Pétur.
Geir Haarde fyrrum fjármálaráðherra getur klætt sig úr hrosshárskuflinum og hætt að iðrast þess að Íbúðalánasjóði var gert kleift um stund að hjálpa ungu fólki - sem annars þurfti að slá viðbótarlán í bönkunum á afarkjörum. Það var vegna þess að þeir misstu af þessum nauðungarviðskiptum að bankarnir reiddust Íbúðalánasjóði og vilja ryðja honum úr vegi.

Nafnlaus sagði...

Narraðir út í ... já, einmitt. Málið er að það var bara enginn neyddur. Hópur af afglöpum ruku til og keyptu sér allt til alls bara af því að þeir gátu fengið lánin. Er þeirra ábyrgð engin? Þú bara fyrirgefur en ég vorkenni þessu liði ekki neitt. Ég horfði forviða á þessa dekurkynslóð sem á eftir mér kemur kaupa sér allt til alls á lánum. Nú æpa allir og veina eins og stungnir grísir af því að húsnæðisverð á að lækka um einhver 30 prósent! Hvaða helvítis gustuk er það? Erum við ekki búin að horfa uppá 100% hækkun á húsnæðisverði undanfarin 3-4 ár? Hvað með það þá þó þetta lækki eitthvað? Málið er að ég, og mín þrautpínda kynslóð, hefur bara nákvæmlega engan áhuga á að hlaupa undir bagga með þessu ábyrgðaleysi.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Ps. Eftir því sem ég hugsa þetta meira þá ættir þú, sem tilheyrir vampírukynslóðinni, og þeir á þínum aldri að velta því fyrir ykkur að skjóta saman handa þeim sem eru í kröggum núna. Góður stabbi jafnaldra þinna fékk sitt húsnæði gefið á silfurfati í óðaverðbólgu en lánin brunnu óverðtryggð upp í bönkunum. Okkur var sendur reikningurinn. Kannski að komið sé að skuldardögum?

Nafnlaus sagði...

Ég er ein af þessum „sökudólgum“ sem tók stórt íbúðarlán eftir að ég kom heim til Íslands úr námi og keypti þá íbúð á uppsprengdu verði. Hvort ég og maðurinn minn erum einhver dekurdýr fyrir vikið held ég ekki. Með þrjú börn er talsvert erfitt að vera á leigumarkaðnum (en hann er nú heldur ekki ókeypis). Leiðinlegt að heyra menn tala um krakkakjána og setja síðan restina undir sama hatt sem dekurdýr. Búa þessir gagnrýnendur ekki í eigin íbúðum? Þeir voru kannski það heppnir að þær voru ekki búnar að hækka þegar þeir keyptu :-( Auðvitað voru einhverjir að endurfjármagna og eyða eins og vitlausir en alls ekki allir.

Ég er svo þakklát fyrir að bankarnir náðu ekki að gera út af við Íbúðarlánasjóð (púff).

Þráinn sagði...

Mikið er ég fegin að þú skaust hér upp kollinum, ágæta Eva Ólafsdóttir. Ég held nefnilega að allur þorri fólks sem kaupir húsnæði sé ekki að gera það af kæruleysi og eyðslusemi heldur vegna þess að það vantar þak yfir höfuðið. Sumir lenda í að kaupa við "góðar" markaðsaðstæður, aðrir kaupa við "slæmar" aðstæður. Húsnæðisþörfin tekur sér ekki frí þegar aðstæður fyrir kaupendur eru "slæmar".
Ég skil ekki alveg Jakob. Ég er sammála um að fólk á ekki að eyða um efni fram og kaupa hluti á raðgreiðslum eða lánum heldur bíða og safna fyrir þessu dóti. Undantekningin frá þessari reglu er húsnæði. Það er fráleitt að fólk sem er að byrja búskap þurfi ekki á fyrirgreiðslu að halda til að eignast húsnæði. Sú fyrirgreiðsla á að vera sanngjörn. Og þessa almennu þörf fjárvana fólks til að eignast húsnæði eiga bankar ekki að gera að gróðalind, nema þá með mjög ábyrgum hætti gagnvart viðskiptavininum. Það á að tryggja með Íbúðalánasjóði.

Nafnlaus sagði...

Sæl Eva og Þráinn!

Já, ég held að þið hafið ekki mikinn áhuga á að vita mínar persónulegu hagi hvað varðar húsnæði. Og tel víst að þið mynduð ekki vilja vera í mínum sporum, hvorugt ykkar, hvað þau varðar. En ykkur til upplýsingar er ég í leiguhúsnæði. Ég hefði alveg viljað taka "stórt íbúðalán" og búa í minni eigin fínu íbúð. En eftir að hafa reiknað það dæmi þá læt ég mér minna nægja. Ég sá að ég hafði og hef einfaldlega ekki ráð á þessu. Á ég þá, eftir að hafa neitað mér um þetta, að hlaupa sem skattgreiðandi þessa lands undir bagga með þeim sem tóku lánin og búa margir eins og greifar, og ráða ekki neitt við neitt? Hvað er það? Við skulum bara horfast í augu við það að ótrúlega margir sem ruku af stað til að kaupa sér húsnæði gerðu það af fullkomnu fyrirhyggjuleysi. Og þeir létu ekki það stjórna för á hverju þeir höfðu ráð heldur var einfaldlega sagt: Ég á skilið að búa eins fínt og hann þessi og hún hin... og svo bara látið skeika sköpu. Ef fólk hefur ekki ráð á að borga af lánum sínum á það einfaldlega ekki að taka þau. Það þýðir ekki að láta ráða för hvað maður á skilið eða hvað mann langar heldur á hverju maður hefur ráð. Að kenna bönkum um finnst mér ekki gáfulegt. Það er að hengja bakara fyrir smið.

Kveðja,
Jakob

Nafnlaus sagði...

Rólegur, Jakob. Ekki gera fólki upp óþarfa þarfir. Það sagði enginn að við hefðum keypt raðhús með bílskúr og jeppa í stíl.

Flott hjá þér að spara. Þú ert ekki einn um að reyna að spjara þig án alls konar óþarfa.

Ertu ekki ánægður með leigubæturnar sem voru loksins að hækka?

Þráinn sagði...

Sjáðu til, Jakob, ég held að það sé ekki í spilunum að verðlauna fólk sem hefur þurft að kaupa sér húsnæði en getur ekki staðið í skilum vegna þess að verðbólgan er rokin upp, lánin eru verðtryggð en launin ekki, og gengi krónunnar er valt. Það fólk á fyrir höndum mikið basl, en aðalatriðið er að koma í veg fyrir að nokkur þúsund fjölskyldu lendi á götunni vegna þess að bankagræðgi hækkaði húsnæðisverð upp úr öllu valdi. Þeir sem lifa um efni fram lenda í vandræðum og þrældómi. Til þess eru refirnir skornir.
Ef maður minnist á að leggja niður hina tímabundnu ráðstöfun, verðtryggingu, verða stjórnmálamenn eins og aular í framan og halda því fram að það sé ekki hægt: Íslendingar byggi tilveru sína á verðtryggingu!

Nafnlaus sagði...

Íslendingar lifa þægilegu lífi frá degi til dags, hanga á kaffihúsi, í sól, talandi um bókmenntir og pólitík. Mjóklandi kýr, drekkandi bjór, reykjandi hass, og græðandi péning.

Perhaps var þetta huxunuarhátturinn sem olli vandræðunum?

UBS hefur nú þegar tapað nokkrum tugum milljarða svissnenskra franka (of stór tala til að skrifa niður) og Glitnir og Kaupþing eru næstum því í gróða, og koma til með að græða á þessu öllu saman? Eins og svo oft áður. Hvernig er ekki hægt að græða með 15.5% vexti?

Þráinn sagði...

Halló nafnlaus. Hvar finnur maður þetta lúxuslíf sem þú ert að lýsa? Ertu utanbæjarmaður? Akureyringur, kannski? :)

Nafnlaus sagði...

Keflvíkingur í Zürich.

Nafnlaus sagði...

Þetta er ótrúlegt. Geir sakar fyrri ríkisstjórn um óstjórn (hann sjálfur fjármálaráðherra í þeirri stjórn). Davíð var að gera hið sama í vikunni. Það er eitthvað að þessum mönnum í höfðinu og einnig íslensku þjóðinni fyrir að hafa liðið þessum mönnum svo lengi að leika sér í vitleysunni á nærri 2 áratugi fyrir allra augum !

kona

Þráinn sagði...

ÁgætiKeflvíkingur í Zürich. ertu að gera gys mér gömlum og fátækum manninum hérna upp á íslandi, fjarri svissneskum gullálfum og huldumönnum, kem aldrei á kaffihús, sé sjaldan til sólar, tala lítið um bókmenntir en meira um stjórnmál því að þau eru í meira ólagi en bókmenntirnar, Kýr hef ég ekki mjólkað í 35 ár, ekki drukkið bjór í 20 ár, aldrei tekið hass ofan í mig og hef ekki grætt nokkurn skapaðan hlut, því að enginn borgar mér vexti og verðbætur, þótt ég sé skyldugur að sjá öðrum fyrir þeim hlunnindum.
Keflvíkingur í Zürich hljómar vel, og þig munar ekkert að skjótast hingað heim á einkaþotunni til að hjálpa til við heyskapinn í góðu veðri. Bestu óskir. :)