þriðjudagur, 8. apríl 2008

Einkaþotuhneigð er sjúkdómseinkenni

Einkaþotuhneigð er aðeins sjúkdómseinkenni
 
Eins og Geir Haarde benti á í einkaþotuumræðum á Alþingi er maðurinn búinn að vera ráðherra í 10 ár.
 
Við ættum að setja það í lög að enginn gegni ráðherraembætti lengur en 10 ár. Það virðist ekki vera gott fyrir heilsu fólks, andlega né líkamlega, að sitja of lengi á valdastólum - og það tekur örugglega ekki nema innan við 10 ár að þurrausa hugmynda- og hugsjónabrunn stjórnmálamanns sem kemst í valdaaðstöðu.
 
Burtséð frá þessu hefði mér verið ánægja að því að heiðra Geir á 10 ára ráðherraafmælinu með því að taka þátt í að gefa honum borðfána eða fallegan silfurskjöld, jafnvel portrett.
 
Einkaþotur eru hins vegar allt önnur Ella.
Hjá stjórnmálamönnum lítilla þjóða eru þær sjúkdómseinkenni og sjúkdómurinn lagast ekki þótt notkun þeirra sé hætt til að forðast að allt verði vitlaust í fjölmiðlum.
 
Sjúkdómurinn heitir hroki.
 
 

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Forsætisráðherra fékk ráðuneyti sitt um síðir til þess að hósta upp kostnaðartölum fyrir einkaþotuflugið. Þar með rauf ráðherra trúnað við þotuleiguna og sýndi almenningi þann trúnað að upplýsa um meðferð opinbers fjár. Það er ótvíræð framför í lýðræðislegum stjórnarháttum, og gerir ekkert þótt dálitla eftirgangsmuni hafi þurft til.

Heyrði eg annars rétt að inn í meintan sparnað við flugið væri reiknaður vinnusparnaður þotuliðsins upp á tvo daga? Þetta þyrfti einhver góður blaðamaður að upplýsa og sundurliða tölurnar skilmerkilega. Það er nefnilega hæpið að láta eins og ráðherrar og fylgdarlið séu invalid á ferðalögum. Ferðalangar bæði í flugvélum, skipum og lestum nota tímann til þess að vinna. Þeim verður oft sérlega mikið úr verki einmitt við þær kringum stæður.

Að lokum skal beðist afsökunar á þeirri lágkúru að gera mál úr þessu. Þetta var ekki bara ódýrara fyrir okkur öll, heldur alveg bráðsniðugt hjá Ingibjörgu og Geir.Vandinn felst í því að pöpullinn misskilur þetta. En sem betur fer birtast þá alþýðufræðarar á borð við pistlahöfund Fréttablaðsins í dag.

Aðeins Davíð Oddsson getur státað af jafnsauðtryggum áhangendum og Ingibjörg Gísladóttir. Allt er gott sem gjörði hann.

Rómverji

Þráinn sagði...

Þetta er sameiginlegt einkenni á svonefndum "sterkum foringjum" en töluvert margir meðal lýðræðisþjóða hafa enn þann dag meira álit á "sterkum leiðtogum" en lýðræðinu sjálfu.
Mér finnst best að fá svona nokkurn veginn "meðalsnotra" leiðtoga; sú manngerð reyndist vel áður en lýðræðið var fundið upp.
Það er grundvallaratriði af leiðtoginn ali upp í brjósti út af þjóð sinni - vera þegar þjóðin er á nálum vegna leiðtogans.

Þráinn sagði...

Smámisritun í athugasemd. Síðasta málsgreinin á að vera svona:
Það er grundvallaratriði að leiðtoginn ali ugg í brjósti út af þjóð sinni - verra þegar þjóðin er á nálum vegna ófyrirsjáanlegra dynta leiðtogans.