mánudagur, 7. apríl 2008

Krataflokkur eða ferðafélag?

Innlent | mbl.is | 7.4.2008 | 15:18

Lágkúra eða óhóf og bruðl

"Nokkuð hvessti á Alþingi í dag þegar Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, spurði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um ferðir hans og annarra ráðherra í leiguflugvélum. Geir sagði að m.a. að málflutningur Ögmundar og VG væri lágkúrulegur en Ögmundur talaði um flottræfilshátt og misskiptingu, óhóf og bruðl."

Miðað við að þessi frásögn á Mbl.is sé rétt finnst mér hrikalega ósvífið af forsætisráðherranum að kalla það "lágkúru" að gagnrýna flottræfilshátt ferða- og dagpeningaklúbbsins sem á að heita Ríkisstjórn Íslands.
Hins vegar finnst mér það sýna vel hvað Geir er lífsreyndur stjórnmálamaður að hann skuli vera svo slægur að kippa alltaf með sér Samfylkingarráðherrum í einkaþotuna. Ingibjörg Sólrún til Búkarest og Björgvin til Svíþjóðar.
Þann tíma sem vinnst með því að leigja einkaþotu gæti Björgvin notað til að hugleiða stimpilgjöldin. Loforðið var að afnema stimpilgjöld - ekki eitthvert óskiljanlegt rugl um að sleppa fólki við stimpilgjöld af fyrstu íbúð.
Þegar Björgvin fattar hvað stimpilgjaldaruglið sem hann lagði fram er lamað gæti hann notað afganginn af tímanum sem sparast til að hugleiða framtíð Samfylkingarinnar sem krataflokks eða ferðafélags, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er fararstjóri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú gleymir að taka það með í slægð forsætisráðherra að hann passar sig líka á því að bjóða Fréttablaðinu með. Nú síðast sjálfum ritstjóranum.

Unknown sagði...

Maður talar ekki um þessi mál í gamantón. Þetta er há alvarlegt mál og jafnvel ástæða til að segja af sér. Er það skylda ríkisins að bjóða hinum og þessum með til að fá dæmið til að ganga upp, svo og svo margir vinnudagar sem sparast. Kennið ráðherra á síma og internetið.

Þráinn sagði...

Sæll, nafnlaus. Satt segirðu, "skynsamlegt" að bjóða pressunni með í þessa túra. Í þetta skipti ritstjóra Fréttablaðsins. Þeir eru reyndar tveir og ég hef ekki séð ennþá hvor þeirra er boðinn með í ferðina.
Sæll, Palli, þakka þér fyrir að reyna að ala mig upp. Það er kannski rétt hjá þér að það sé ekki viðeigandi að tala um grafalvarleg mál "í gamantón". Um það hefur verið deilt frá örofi alda og sú deila hefur mér vitanlega aldrei verið útkljáð. Svo að ég kýs gamantóninn og eftirlæt öðrum harmaljóðin.

Nafnlaus sagði...

Auðvitað er þetta með tímasparnaðinn fyrirsláttur. Helst mætti gera því skóna að Geir þori ekki að vera lengi af bæ - á þessum miklu plotttímum. Davíðsarmurinn gæti gert hallarbyltingu.

Hitt er víst að sá tími er vanmetinn sem fyrirmenni fá í fínum flugvallarlánsum til að hugsa sitt ráð. Það er þau fyrirmenni sem þola að vera samferða íslenskum pöpli.

Af of miklum einkaþotuþeytingi upphefst ráðleysi. Að lokum geta menn orðið ga ga og farið að sjá árásargjörn og lágkúruleg hænsn í hverju horni.

Rómverji