mánudagur, 21. apríl 2008

Samfylkingin greinist með Framsóknarheilkennið

Stjórnmálafræðingar hafa nú áhyggjur af því að Samfylkingin kunni að vera orðin sýkt af hinu svonefnda Framsóknarheilkenni.

Framsóknarheilkenni er krónísk uppdráttarsýki og hlýst af stjórnarsamstarfi við Flokkinn.

Helstu sjúkdómseinkenni sem koma jafnan fyrst fram í skoðanakönnunum eru.

1. Minnkandi gengi í skoðanakönnunum og kosningum.

2. Óánægja og þverrandi lífsgleði óbreyttra flokksfélaga.

3. Vaxandi veruleikafirring ráðamanna flokksins.

4. Vaxandi dylgjur um að flokkurinn sé einvörðungu spillt samtryggingarklíka um völd.

5. Vaxandi innbyrðis deilur í flokknum sem eru svo leiðinlegar að fólk tekur að forðast samkomur hans og fundi.


Orsakir eru ókunnar, en Framsóknarheilkennið dró nafn sitt af því að öruggt var talið að 12 ára náið samstarf við Flokkinn hefði haft einhvers konar geislavirknisafleiðingar sem leiddu til þess að heilbrigt fólk forðaði sér í skjól og forðast að eiga samskipti við þá sem eftir lifa úr fyrrnefndu 12 ára samstarfi við Flokkinn.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Orsakirnar eru reyndar alkunnar og kallast valdafíkn, sem hegðar sér á sama hátt og önnur fíkn. Það sem kemur hinsvegar á óvart er að þarna skildu leynast svona margir fíklar, en auðvitað eru fíklar snillingar í að leyna fíkn sinni upp að vissu marki.

Andrés Magnússon sagði...

Ætli það megi ekki rekja lengra aftur en Þráinn gerir. Dæmi má finna um framsóknarheilkennið aftur til millistríðsáranna og þurfti þó ekki samstarf með íhaldinu til. Hins vegar hygg ég að þetta sé fremur gamall kratakrankleiki, sem er að taka sig upp. Öll atriðin fimm, sem Þráinn telur upp, áttu við Alþýðuflokkinn sáluga. Og það sem meira er, öll atriðin áttu við um allaballana líka. Er nema von þó að Samfylkingin finni til þeirra erfðasjúkdóma?

Þráinn sagði...

Þetta er rétt hjá Andrési enda er hann glöggur maður. Þeir sem hafa gengið til samstarfs með Flokknum hafa alla tíð kallað yfir sig ógæfu og pólitískt heilsuleysi.
Það er mjög líklegt að kratagenin í Samfylkingunni séu sérlega lasburða í þessu trámatíska umhverfi.
Þessi sjúkdómur sem ég kalla í léttúð minni "Framsóknarheilkenni" lýsir sér í raun þannig að stjórnmálaflokkar sem fara í ríkisstjórn með flokknum fá nokkurs konar pólitíska kúariðu.

Þráinn sagði...

Athugasemd Andrésar Magnússon vakti mig til umhugsunar um hvað það er sem veldur því að flokkar sækjast eftir stjórnarsamstarf við Flokkinn sem étur út þeim hjartað og kennir þeim um allt sem aflaga fer.
Ég gleymi ekki sorginni í augum Steingríms Sigfússonar þegar það kom í ljós á kosninganótt að Flokkurinn hefði ekki lyst á að gera VG að næsta fórnarlambi sínu.

Nafnlaus sagði...

Mikið finnst mér það leiðinlegt þegar Þráinn byrjar á aulabröndurunum. Ég veit fátt leiðinlegra en rithöfund sem heldur að hann verði að vera alveg drepfyndinn í hverri einustu setningu

Þráinn sagði...

Sammála! Gleymdi því bara eitt augnablik að allt sem maður segir um VG skilgreinist sem "aulabrandarar".

Nafnlaus sagði...

Framsóknarflokkurinn hefur einhverntíma á sinni hundstíð verið íslensku samfélagi til gagns. Því er ekki að neita. Eysteinn Jónsson, Vilhjálmur á Brekku ... Þeirra má minnast nú.

Hin síðari ár hef eg hallast að sjónarmiðum Jónasar Kristjánssonar um flokkinn, fremur en sjónarmiðum Þráins. Ólafur Ólafsson, Halldór Ásgímsson, Finnur Ingólfson ... Þeirra minnist maður nú þegar Framsóknarflokkurinn er nefndur.

En Þráinn telur að Finnur hafi hrakið Sverri Hermannsson úr Landsbankanum í heilögu stríði gegn spillingu, og hrekkleysi er erfitt að yfirvinna.

Nafnlaus sagði...

Þráinn, mér rennur blóðið til skyldunnar, sjáðu til, hann afi minn sálugi, Jón Bjarnason og bróðir hans Ingimar, voru framámenn um stofnun og tilurð Alþýðuflokksins á Vestfjörðum, kallaðir Bolsar.

Afi, þá skipstjóri, stillti sér upp við hlið ,,kalrlanna sinna" í Togarslagnum forðum. Hann fékk á sig svona nokkurskonar Ferruftsverbot þannig að hann varð að flytja til Vestmannaeyja, hvar ákveðnar ættir, nefni auðvitað engin nöfn, voru ekki eins sterkar.

Hann lagaðist af þessu karlinn og varð yndislegt Íhald með aldrinum.

Eins var með öll hans börn.

Krataflokkar, hverju nafni sem þeir nefnast og hvursu bleikir/rauðir þeir eru, eru ævarandi undirseldir Höfuðsyndunum sjö, --jafnvel vígðir menn innan þeirra,-- og er græðgin í aura og svo helvítis ekkesens hofmóðurinn, maður minn, snobbið étur þetta lið allt upp á augabragði. Vilja nudda olnbogum (og jafnvel ðrum líkamspörtum) upp við ,,herrana ríku og frægu" --sjáðu nú bara til að mynda forseta ykkar (minn forseti er Vigdís --skýri það síðar)það má ekki fréttast af veislum eða tildragelsum úti í hinum stóra heimi, ða honum finnist ekki bráðnauðsynlegt að heiðra viðkomandi með sinni nærveru og konu sinnar.

Styrkur Íhaldsins míns blessaða er ekkert annað en og nú kemur Stóri Palladómurinn.--við höfum innanborðs nokkuð af fornu aristókrasíu, mis blönku en aristókrati samt, og uppeldi þeirra og upplag er oft svo yfirmáta rólegt, að þeir vita vel, að allir hinir, --sama hve ríkir þeir eru, þurfa,- líkt og sagt var fyrir vestan eða heima eins og það heitir í minni ætt,- að beygja sig til að skí.., sumsé,

Okkur blæðir öllum, eins og enn var sagt ,,heima"

Miðbæjaríhaldið

Þráinn sagði...

Ég þakka kærlega fyrir hjálpfýsina en vil samt koma því á framfæri við nafnleysingja sem fá andann yfir sig við að lesa blekið mitt hérna - að þegar kemur að mínum persónulegu skoðunum á pólitík eða einhverju öðru þá kýs ég helst að lýsa þeim hjálparlaust og undir fullu nafni. Annað gæti valdið misskilningi.
Þakka Miðbæjaríhaldinu fyrir skemmtilegt innlegg.
Ég er líka kominn af vestfirskum bolsum. Það úrkynjast allar ættir fyrr eða síðar.

Nafnlaus sagði...

Hef reynt að viðhalda þeirri kurteysi, að koma inn til manna ekki í dulargerfi.

Sko. Þannig er, að ég reyndi ítrekað að gerast nefndur á bloggi þínu en án árangurs og geng hér undir míu ,,nikki" af moggablogginu. ÞEtta skýrist af sérdeilis miklum klaufaskap við innskriftir eftir formum, ekki svo að skilja, að ég ´se á moti formum, per se, öðru nær, er bara svona skelfing klaufskur.

Þú defínerar þínar pólitísku og annarskonar skoðanir alveg vita hjálparlaust og var ekki ættlan mín, enda ofætlan mikil, að vera eittvað að hlaupa undir baggann þar.

Til að nefna mig vil ég það hér gjöra og alldeilis svona banalt.

Bjarni heiti ég, er Kjartansson og Margrétarson.

Pápi var Jónsson, Bjarnasonar bónda á Tannastöðum vestra.

Móðir mín var Magnúsdóttir Thorberg, komin að því er virðist, (svo sem sá leggur heldur) í beinan karllegg va Snorra á Húsafelli.

Annað var það nú ekki og vona ég, að ég hafi ekki móðgað þig með strákslegri innkomu í þín ,,rithús" hér á blogginu.

Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson
101 Rvík

Nafnlaus sagði...

Ekki var það hjálpfýsi. Aðeins rifjuðust upp orð þín um vanþakkláta baráttu Finns Ingólfssonar fyrir bættu siðferði, sem féllu í athugasemd við blogg Egils Helgasonar 26. mars.

Athugasemdir um nafnleysi lofa eg að láta framhjá mér fara sem einn goluþyt. Nafn mitt er Rómverji. Lofa líka að lesa pistla þína til upplyftingar andanum og gera athugasemdir ef svo ber undir. Þér er svo auðvitað frjálst að stroka út það sem þér líkar ekki. Eyjan gæti líka reynt að banna “nafnleysi”, ef hún vill vera eitthvað annað en bloggsamfélag þar sem menn skiptast á skoðunum fremur en misáreiðanlegum nöfnum.

Fyrir alla muni bloggaðu áfram og skrifaðu eins og þú lifandi getur.

Rómverji (hvorki íhald né snobb, en samt dálítið skemmtilegur. Stundum.)

Þráinn sagði...

Ágæti Rómverji. Það hvarflar ekki að mér að gefa Finni Ingólfssyni né nokkrum öðrum stjórnmálamanni allsherjar siðferðisvottorð. En rétt skal vera rétt. Það var Finnur viðskiptaráðherra sem rak Sverri Hermannsson Landsbankastjóra. Að öðru leyti þakka þér bráðskemmtilegar og skarpar athugasemdir.
Ágæta Miðbæjaríhald þakka þér kærlega fyrir að segja deili á þér. Ég er mjög lélegur í ættfræði, nema hvað ég kann nöfn á um það bil tíu frægum stóðhestum. Ég er Vestfirðingur í báðar ættir svo að glúrinn ættfræðingur væri sennilega ekki lengi að því að finna ættartengsl á milli okkar.