föstudagur, 11. apríl 2008

Stórkapítalisti vill kaupa íslensku bankana!


AUGLÝSING TIL ÍSLENSKRA BANKAEIGENDA!

Vogun vinnur, vogun tapar!

Að vandlega athuguðu máli og hafandi rætt við eiginkonu mína er ég reiðubúinn að kaupa íslensku bankana.
Myndin sýnir stórkapítalistanm á ferð í Afríku


Ég mun greiða allt að einni evru fyrir hvern þeirra með eignum, skuldum, leynihólfum og listaverkasöfnum.

Tilboð mitt stendur til hádegis á mánudag 14. apríl nk.

Fyrirætlun mín með þessum viðskiptum er að afhenda íslensku þjóðinni aftur eign sína, sem hún getur þá notað fyrri reynslu sína til að koma í hendur traustra aðila á hæsta verði innan sanngirnismarka - að uppfylltum fáeinum skynsamlegum og sanngjörnum skilyrðum sem einhverra hluta vegna gleymdust við hina fyrri einkavæðingu.

Virðingarfyllst,

Þráinn Bertelsson verðandi stórkapítalisti um stund

Lysthafendur hafi samband við: nyttlif@simnet.is

FYRSTIR KOMA, FYRSTIR FÁ!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef marka má myndirnar, þá er þetta mest traustvekjandi stórkapítalisti sem eg hef augum litið í tæp 1700 ár.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Þetta lítur vel út og má alls ekki bregðast.

Efri myndin sýnir að stórkapítalistinn hefur meira að segja slökkvitæki handbært til að spúa á þann illa eld úr neðra sem upp tærir aura og krónur. Má ekki treysta því að hann ferðist jafnan með fötu af sandi til að stinga skarpvitrum kolli sínum í þegar bólgan vex og hrunið magnast? Teppið gerir kannski sama gagn? Röggvafeldur væri þó þjóðlegri. Talanda hefur stórkapítalisti in spe góðan og má vel treysta honum til að mæla upp á óttu en niður þegar röðull rennur í sæ.

Hlýð þú kalli, ó íslenska þjóð.

Þráinn sagði...

Það gleður mig að undirtektir skuli vera svona jákvæðar.
Leyfið bönkunum að koma til mín og bannið þeim það ekki!

Nafnlaus sagði...

Þráinn

Ég ætla nú ekki að skrifa um þessi umæli en.... ég ætla bara að þakka þér innilega fyrir Kæra dagbók í Fréttablaðinu það er dýrðlegt að lesa það þú ert óborgalegur skemmtilegt og hnitmiðað ég bíð eftir þessu á hverjum laugardegi flýti mér niður og næ í blaðið og fæ fyrsta brosið sem kemur ALLTAF þegar ég les pistlana þína

Þúsund þakkir að vera til
Kær kveðja frá brosmildu

Þráinn sagði...

Takk, brosmild mín, fyrir síðustu athugasemd. Verst að þú skulir ekki segja til nafns, því að nú halda allir að ég hafi skrifað þetta sjálfur.

Nafnlaus sagði...

Sæll Þráinn

Það er ég aftur brosmild ég veit ekki afhverju eg skrifaði ekki undir nafni það var bara ykkvað hugsunarleysi ég segji það öllum sem vilja heyra hvað mér fynst greinarnar þínar í Fréttablaðinu og bækurnar virkilega GÓÐAR og SKEMMTILEGAR þú ert snillingur og ég bíð í ofvæni eftir næsta sem kemur frá þér
Með fyrirfram þakklæti
Inga Stefánsdóttir
040353 - 4299

Þráinn sagði...

Takk fyrir þetta, Inga mín. Maður verður brosmildur af því að fá svona fína kveðju. Takk!