þriðjudagur, 1. apríl 2008

Tilkynning frá ríkisstjórn Íslands

Í tilefni af því að okkur hefur loksins tekist að "semja um starfslok" við Davíð Oddsson seðlabankastjóra verða nokkrar bráðabirgðabreytingar á verslunarháttum þjóðarinnar næstu daga.

1. Íslenska krónan er ekki lengur gjaldmiðill heldur hlutabréf í óstofnuðu fyrirtæki sem á að heita Ísland Ohf.

2. Öll verslun fer fram með vöruskiptum.

3. Vextir eru ekki aðeins lagðir niður heldur bannaðir.

4. Verðtrygging verður afnumin svo og bæði stimplar og stimpilgjöld.

5. Seðlabankinn verður endurrreistur þegar fundist hefur Almannatengslafyrirtæki sem getur endurreist hann. Annars verður byggingin notuð sem félagsmiðstöð fyrir ungmenni í 101.

6. Við skorum á forstöðumenn trúfélaga að biðja fyrir íslensku þjóðinni og Davíð Oddssyni sérstaklega.

7. Sala áfengis verður bönnuð um óákveðinn tíma.

8. Þeir sem eiga afgangs flugelda í fórum sínum hafa þó leyfi til að fagna þessum ákvörðunum.

Stjórnin

2 ummæli:

mariakr sagði...

Gott að þú skulir vera farinn að blogga aftur. Verst að þjóðin skuli ekki skilja sinn vitjunartíma og gera þig að menntuðum einvaldi svosem einsog í tvær vikur, það myndi redda ýmsu!
(annars er þetta google-sthugasemdakerfi of flókið- búin að gefast upp mörgum sinnum á að gera athugasemd)

Þráinn sagði...

Margblessuð Mæja mín og takk fyrir innlitið. Ég hef því miður ekki tíma til að taka þessu góða boði þínu um að gerast hér menntaður einvaldur í nokkra daga. Ég er að skrifa bók um rasisma sem mér finnst rosalega merkileg þótt hún sé glæpasaga. Það væri helst að ég vildi taka að mér hóp skæruliða sem færu um á nóttinni og hreinsuðu upp mestu glerbrotin og grafítið sem fólk skilur eftir.Af hverju er þjóðin orðin svona sóðaleg?
Í gamla daga fór maður í bað og sparifötin ef maður ætlaði í bíó; það var kannski fullmikið af því góða, en einhvers staðar hlýtur snyrtilegt meðalhóf í hreinlæti að vera að finna.