miðvikudagur, 2. apríl 2008

Utanríkisráðherra á þreföldum hljóðhraða



Handvömm að ráðherra fundaði ekki með nefnd fyrir Búkarestferð

Handvömm eða óprúttnir aðilar virðast hafa ráðið því að utanríkisráðherra fundaði ekki með utanríkismálanefnd Alþingis áður en hún hélt á leiðtogafund Atlantshafsbandlagsins í Búkarest í dag. Þetta sagði Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar á Alþingi.

Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri - grænna í nefndinni, kvaddi sér hljóðs á þingfundi og benti á að hann hefði á mánudag óskað eftir fundi í nefndinni með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra áður en hún færi til Búkarest.

Nú er verið að prútta við bandarísk yfirvöld um hversu mikið myndi kosta að leigja hraðfleygustu þotu heimsins Lockheed SR-71 Blackbird, þannig að hægt væri að senda tvo til þrjá sérsveitarmenn til Búkarest eftir utanríkisráðherra.

Þannig gæti ráðherrann fundað með utanríkismálanefnd á Loftleiðahótelinu meðan Blackbird-þotan biði fyrir utan - og verið komin aftur til Búkarest í tæka tíð fyrir fundinn.

Farkostur utanríkisráðherra og föruneytis er lítil og ódýr einkaþota af gerðinni Dornier 328 sem nær aðeins um 360 mílna flughraða á klukkustund. Mikill tími og þar af leiðandi peningar myndu sparast ef íslenskir ráðamenn ferðuðust með Blackbird sem nær rúmlega þreföldum hljóðhraða eða MACH 3.2.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lögboðinn fundur með utanríkismálanefnd?

Maður getur nú ekki munað eftir öllu.

Rómverji

Þráinn sagði...

Satt er það. Og síðan framkvæmdavaldið skaut löggjafasamkundunni ref fyrir rass þykir ráðherrum lítill tilgangur í að sitja og þrasa við blækurnar í þinghúsinu.